Norðanáhlaup á miðvikudag
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun fyrir landið allt enda búist við norðan hvassviðri eða stormi með rigningu eða snjókomu norðan- og austanlands á miðvikudag. Snemma á miðvikudag gengur í norðan 15-23 m/s, hvassast austast á landinu.
Á vedur.is segir að með norðanáttinni fylgi úrkoma norðan- og austanlands, frá Vestfjörðum og austur á Austfirði. Úrkoman verður á formi rigningar á láglendi, en slydda eða snjókoma ofan 200-300 metra yfir sjávarmáli. Seinnipart dags kólnar smám saman og mörk rigningar og snjókomu færast neðar.
Vetraraðstæður geta skapast á vegum, sérílagi á fjallvegum. Um sunnanvert landið er spáð lítilli eða engri úrkomu, en þar geta snarpir vindstrengir við fjöll verið varasamir fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og lausamunir geta fokið, einkum á Suðausturlandi.
Þessu norðan áhlaupi veldur djúp lægð austur af landi en enn er óvissa í spám varðandi braut lægðarinnar og dýpt hennar og þar með hversu hvasst verður og hve neðarlega mörk rigningar og snjókomu verða.
Engu að síður er norðan óveður af einhverju tagi líklegt. Viðvaranir verða uppfærðar á vef Veðurstofunnar eftir því sem nýir spáreikningar berast og viðvaranir verða nákvæmari og svæðaskiptar þegar dregur nær veðrinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.