Norðurlandsslagur í kvöld - nú er að duga eða drepast

Áfram Tindastóll

Tindastóll og Þór takast á í Síkinu í kvöld föstudag og hefst leikurinn klukkan 19:15.  Þórsarar komnir með bakið þétt upp að veggnum og eiga á hættu að falla úr deildinni, en Stólarnir eygja enn möguleika á úrslitakeppninni. Þetta er því útkall, allir í Síkið.
 Að vísu er falldraugurinn enn hangandi í Stólunum, því ef allt fer á versta veg og Þórsarar hrökkva í gang og fara að vinna þá leiki sem þeir eiga eftir, þá geta þeir komist upp fyrir heimamenn, sérstaklega ef leikurinn í kvöld fer illa. Það er því gríðarlega mikið í húfi.  Flake er farinn frá Tindastóli og nýr leikmaður kominn í staðinn, kani að nafni Alphonso Pugh. Alphonso þessi gengur á öllum sílendrum, en því miður var Flake orðinn mjög tæpur vegna meiðsla og gat engan veginn beitt sér að fullu.

Stólarnir hita upp í hádeginu með stuðningsmönnum yfir hádegisverði á Mælifelli og eru sem flestir hvattir til að mæta þar gegn vægu gjaldi. Það má búast við mörgum Þórsurum á pallana annað kvöld og því er nauðsynlegt að allir þeir sem vettlingi geta valdið mæti og láti í sér heyra. Stuðningurinn undanfarið hefur verið frábær í síðustu leikjum og stemmningin minnt á gamla daga í Síkinu.

Það er nokkuð ljóst að búist er við jöfnum leik.  Leikirnir á síðasta tímabili voru báðir háspennuleikir og unnust með einu stigi hvor. Þór náði að vinna 106 - 107 á Króknum, en Stólarnir hefndu á Akureyri og unnu eins stigs sigur þar 93 - 94 með flautukörfu frá Svavari. Í fyrri leik liðanna á þessu tímabili voru Þórsarar yfir 76 - 68 þegar rúm 1 og hálf mínúta var eftir, en 14 stig frá Tindastóli gegn einu færði Stólunum fimm stiga sigur 77 - 82.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir