Norðvesturúrvalið í góðum málum í 2. flokki kvenna

Stelpurnar voru sælar með sigurinn í gærkvöldi. MYNDIR: ÓAB
Stelpurnar voru sælar með sigurinn í gærkvöldi. MYNDIR: ÓAB

Það var spilaður fótbolti á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi þegar Norðvesturúrvalið (Tindastóll Sauðárkróki, Kormákur Hvammstanga, Hvöt Blönduósi og Fram Skagaströnd) tók á móti liði Aftureldingar, toppliði B-riðils í 2. flokki kvenna. Lið NV stendur vel að vígi í riðlinum því það hefur tapað fæstum stigum liðanna en á eftir að spila nokkra frestaða leiki. Stelpurnar okkar höfðu talsverða yfirburði í leiknum sem þó var spennandi því þrátt fyrir mýmörg tækifæri gekk brösuglega að koma boltanum framhjá sprækum markverði gestanna. Lokatölur engu að síður 4-2 sigur.

Það var markamaskínan Saga Ísey sem gerði fyrsta markið á 26. mínútu en Fjóla Rut jafnaði fyrir hlé. Eyvör Páls kom Norðvesturúrvalinu yfir á 52. mínútu og Birgitta Rún bætti við marki átta mínútum síðar eftir góða sókn. Stelpurnar fengu nokkur úrvalsfæri til að gera út um leikinn en gestirnir náðu góðri sókn á 85. mínútu og Karen Dæja Guðbjartsdóttir (hlýtur að vera skagfirsk) minnkaði muninn. Það var hins vegar Lilla Stebba, markvörður í 3. flokki en stormsenter í 2. flokki, sem sá til þess að tryggja sigurinn með marki á 90. mínútu.

Staðan í B-riðlinum er þannig að Afturelding er efst með 19 stig að loknum tíu leikjum, Valur/KH er í öðru sæti með 16 stig eftir átta leiki og Tindastóll/KHF í þriðja sæti með 15 stig að loknum sjö leikjum. Stelpurnar eru því í góðum séns með að vinna riðilinn. Önnur lið í riðlinum eru ÍA, Þróttur R, Stjarnan/Álftanes, Haukar og Fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir