Nú vill maður þetta bara enn þá meira

 Eins og við greindum frá fóru þeir félagar Árni Arnarson leikmaður Tindastóls og Sigurður Halldórsson þjálfari til Hertha Berlin nú fyrir skemmstu.  Þeir eru nú komnir heim eftir frábæra ferð en á heimasíðu knattspyrnudeildar Tindastóls má lesa ferðasögu þeirra félaga.

Knattspyrnudeild Tindastóls þakkar Eyjólfi Sverrissyni sérstaklega fyrir en hann var tengiliður við Hertha Berlin og kom þessu öllu í kring.

Árni Arnarson:

"Ég æfði með varaliðinu og u19 ára liðinu, 5 eða 6 æfingar alls. Æfingarnar, sem var stjórnað af 3-6 þjálfurum, voru mjög góðar og það var mikið unnið í fótavinnu og að halda bolta innan liðs. Gæðin voru miklu meiri en maður er vanur heima eins og líka tempóið sem var svakalega hátt. Unglingaliðin eru mjög sterk og innan Herthu Berlin eru 5 unglingalandsliðsstrákar. Aðstæðurnar voru frábærar, 7 grasvellir sem voru allir einsog teppi og 2 gervigrasvellir.

Við gistum á nokkurskonar heimavist sem er á svæðinu og það var mjög vel hugsað um okkur, höfðum eldhúsaðstöðu þar sem við gátum fengið okkur það sem okkur langaði í og svo var mötuneyti þar sem við gátum fengið tilbúin mat. Við fórum á leik á Ólympíuleikvangnum í Berlín og vorum við með VIP miða á Hertha Berlin vs. Vfl Bochum. VIP aðstaðan er á 4 hæðum og á hverri hæð boðið uppá endalaust úrval af mat og drykkjum og það var borðað fyrir leik, í hálfleik og eftir leik. Eftir leikinn komu nokkrir leikmenn aðalliðsins og við fengum tækifæri til að hitta þá og spjalla.

Öll aðstaða og umgjörð í kringum félagið er til fyrirmyndar hjá Herthu og þjálfunin mjög góð. Þetta var frábær ferð og mikil upplifun þar sem ég lærði heilmikið. Ég sá hvar ég stend miðað við strákana úti og hvað það er sem ég þarf að gera til að bæta mig og taka næsta skref úr því að vera efnilegur í að verða góður leikmaður og ég er að vinna í þeim hlutum.

Nú er maður búinn að sjá hvernig þetta er og fá að upplifa þetta og það gefur manni auðvitað auka kick, núna vill maður þetta bara ennþá meira."

Takk fyrir mig, 

Árni Arnarson

Sigurður Halldórsson:
"Við fórum út sunnudaginn 14.nóvember en alls tók ferðin 6 daga.   Árni æfði nokkuð vel, bæði með B - liði Hertha Berlín, en þó aðallega með liði þeirra, skipað leikmönnum 19 ára og yngri.   Þetta 19 ára lið er það sterkasta yfir allt Þýskaland, með 4 landsliðsmenn innanborðs.

Hjá Hertha eru frábærar aðstæður til æfinga og var æft á mjög góðum rennisléttum  grassvæðum.  Eins var ljósabúnaður við alla vellina.   Þegar Árni var við æfingar hjá varaliðinu þá var einn af 6 þjálfurum með það hlutverk að taka upp æfinguna og fengum við Árni eintök af þessum æfingum með okkur heim.

Árni stóð sig mjög vel og hafði í fullu tré við þá varðandi skottækni og tækni yfirleitt, sömuleiðis virtist Árni hafa hlaupahraða, en spilhraði þeirra og líkamlegur fótastyrkur var talsvert meiri.  Þeir æfa mikið, nánast alla daga og vinna talsvert í fótavinnu fyrir allar æfingar og fannst mér þeir vera frábærir í stuttu spili á þröngu eða stuttu svæði. Markmenn æfa yfirleitt mjög mikið á séræfingum, enda markmannsþjálfarar sem fylgja öllum þessum liðum sem ég fylgdist með í elstu flokkunum.

Að hafa fengið að fylgjast með þessum æfingum, þessa daga, er ég mjög  ánægður með og veit ég að Árni var mjög sáttur að hafa tekið þátt í þessum æfingum og að sjá hvernig hann væri staddur knattspyrnulega, á meðal þeirra bestu í Evrópu.

Til að fólk átti sig á stærð þessa félags þá búa um þrjár og hálf miljón manns, í Berlin og hefur því

Hertha úr talsverðum fjölda að velja því annað félag er ekki í Berlín að spila við þessar aðstæður.

Aðalvöllurinn tekur c.a.75 þúsund manns og er hann mjög vel sóttur.

Ég vil að lokum þakka stjórn Tindastóls og Eyjólfi Sverrissyni landsliðsþjálfara, fyrir hans framlag við að koma okkur til þessa stórliðs og verð ég að segja frá því, að við Árni fengum frábærar móttökur fyrst og fremst út af kynnum okkar af Eyjólfi, sem er ennþá í miklu uppáhaldi hjá þessu ágæta félagi."

Fleiri fréttir