Ný reglugerð setur fjárhag HNV í óvissu
Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra lýsir yfir vonbrigðum og undrun, með að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi ekki haft raunverulegt samráð við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð reglugerðar sem snertir leyfisveitingar til fyrirtækja. Á fundi nefndarinnar, sem haldinn var í gær, var minnt á að farið var í gerð reglugerðarinnar með það að markmiði að einfalda leyfisveitingaferilinn til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulífið.
Í fundargerð er ritað: „Útfærslan þ.e. reglugerð 550/2018 hefur heldur betur snúist upp í andhverfu sína, þar sem reglugerðin leiðir af sér flóknari og kostnaðarsamari leyfisveitingaferil. Reglugerðin felur í sér flutning á verkefnum frá HES og til UST, þrátt fyrir yfirlýsta stefnu um að flytja verkefni til sveitarfélaganna. Reglugerðin er mjög óskýr og inn í almennan ramma um leyfisveitingaferli og eftirlit eru felld inn tæknileg ákvæði um starfsemi sem er ekki að finna á Íslandi og afar ólíklegt að muni taka til starfa á Íslandi sbr. kafli um brennsluver.
Nýleg dæmi um breytingu á leyfisveitingarferli og eftirliti með örfyrirtækjum í fiskeldi sem gerð var undir sömu formerkjum og reglugerð 550/2018, leiddi af sér að starfsleyfisgjald hækkaði úr 19.266 kr. og í 246.000 kr. Árlegt gjald vegna eftirlits hækkaði úr 22.000 kr. í 187.000 kr.
Enn er allt óljóst um endanlega útfærslu á leyfisveitingaferli þar sem enn á eftir að setja reglugerð um skráningarskyldu og hvaða fyrirtækjum er ætlað að falla undir hana. Af þeim takmörkuðu upplýsingum sem hafa komið frá ráðuneytinu má helst ráða að útfærslurnar muni auka kostnað og flækjustig í leyfisveitingarferlinu. Það er rétt að vekja athygli sveitarfélaga sem standa að rekstri HeNv að reglugerð 550/2018 mun auka á rekstrarkostnað eftirlitsins og setja fjárhag Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra fyrir árið 2019 í nokkra óvissu.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.