Ný stjórn Ferðafélags Skagfirðinga

Aðalfundur Ferðafélags Skagfirðinga var haldinn 29. september sl. Félagið fagnar nú 50 ára afmæli sínu. Það var formlega stofnað þann 27. desember 1970 í gamla bæjarþingsalnum við Kirkjutorg. Alls voru 22 mættir á stofnfundinn og að auki sendu 10 manns umboð. Því voru stofnfélagar 32 talsins.

Fyrstu stjórn skipuðu Ingólfur Nikódemusson formaður, Sigurþór Hjörleifsson núverandi heiðursfélagi, Haukur Hafstað, Finnbogi Stefánsson á Þorsteinsstöðum, og Friðrik A. Jónsson. Til vara voru kjörnir Ingólfur Sveinsson og Þorvaldur Óskarsson. Endurskoðendur voru  Sigurlaug Jónsdóttir og Úlfar Sveinsson sem verið hefur öruggur endurskoðandi félagsins frá upphafi. Var fyrsta ferðaáætlun félagsins fyrir 1971 afar metnaðarfull.
Sá ánægjulegi atburður gerðist á aðalfundinum að ungt og efnilegt fólk gaf kost á sér í stjórn félagsins. Var orðið löngu tímabært að endurnýja mannskapinn og færa starfsemina inn á 21. öldina. Sama stjórn hafði setið frá árinu 1999.
Á ljósmyndinni eru frá vinstri talið Vala Hrönn Margeirsdóttir (Jósefína prinsessa), Sigríður Inga Viggósdóttir formannsefni, Hallbjörn Björnsson, Broddi Reyr Hansen og Kári Árnason. Nýju stjórnina skipa ungt og efnilegt fólk með góða reynslu og áhuga á margs konar ferðamennsku.
Ferðafélagsfólk óskar nýju stjórninni alls hins besta í störfum sínum og megi Ferðafélag Skagfirðinga þróast og dafna í framtíðinni í takt við breytta tíma.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir