Nýr frisbígolfvöllur á Sauðárkróki
Á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar er sagt frá nýjum frisbígolfvelli á Sauðárkróki. Frisbígolfvöllurinn er staðsettur í Sauðárgili, nánar tiltekið í og við Litla skóg.
Folf eða frisbígolf er skemmtileg íþrótt sem allir geta stundað, þar sem útivist, hollri hreyfingu og skemmtun er blandað saman. Folf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf. Í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska þar sem markmiðið er að klára hverja braut á sem fæstum köstum. Á vellinum er að finna teiga, brautir og flatir þar sem markmiðið er að koma diskunum í þar til gerðar körfur sem gegna hlutverki hola.
Eins og áður sagði er takmarkið er að kasta disknum í körfuna í sem fæstum skotum og sá vinnur sem þarf fæst skot. Annað skot er tekið þar sem diskur lendir eftir fyrsta skot og sá á fyrst að gera sem lengst er frá körfu. Tillitsemi er stór hluti af leiknum og því er sanngjarnt að mótspilari þinn fái að kasta án truflunar, það sama myndir þú vilja. Ekki taka kast fyrr en þú er viss um að flug disksins og lending trufli ekki hina spilarana.
Folf er skemmtileg íþrótt og tilvalin fyrir alla fjölskylduna.
Frekari upplýsingar um folf má finna á vefnum Frisbígolf á Íslandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.