Nýtt Skagafjarðarkort komið í dreifingu

Nú í vikunni kom nýtt Skagafjarðarkort Félags ferðaþjónustunnar í Skagafirði og Sveitarfélagsins Skagafjarðar úr prentun. Kemur kortið í stað Skagafjarðarbæklingsins sem gefinn hefur verið út árlega síðustu árin sem og afrifukortanna þar sem var kort af Skagafirði og götukort þéttbýlisstaðanna í sveitarfélaginu. Nýja kortið verður aðgengilegt í öllum helstu upplýsingamiðstöðvum landsins sem og hjá ferðaþjónustuaðilum í Skagafirði.

Skagafjarðarkortið nýja sameinar því Skagafjarðarbæklinginn og afrifukortið í eitt öflugt ferða- og þjónustukort fyrir ferðamenn þar sem allar helstu upplýsingar um Skagafjörð er að finna. Kortið sýnir þá áhugaverðu staði, þjónustu og afþreyingu sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða fyrir ferðamenn. Þá gafst aðilum í ferðaþjónustu og verslun á svæðinu tækifæri til að auglýsa í bæklingnum og var þátttakan framar vonum.

Kortið var unnið hjá Nýprenti ehf. á Sauðárkróki í samvinnu við Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði og starfsfólk kynningar- og markaðsmála hjá Svf. Skagafirði. Starfsmenn Nýprents önnuðust hönnun, kortagerð og sáu um gerð meirihluta þeirra auglýsinga sem kortið prýða. Ísafoldarprentsmiðja prentaði.

Á heimasíðu Skagafjarðar segir: „Efnt var til myndasamkeppni um forsíðumynd Skagafjarðarkortsins. Margar fallegar myndir bárust og voru innsendar myndir um 80 talsins. Var mynd Hermanns Þórs Snorrasonar valin og prýðir hún forsíðu Skagafjarðarkortsins.“

Eftir að hafa verið andlit Skagafjarðar í langan tíma hefur loks ljósgrái líflegi unggæðingurinn, sem prýddi forsíður fyrri ferðabæklinga, verið lagður á hilluna – og sennilega búinn að draga ófáa ferðamennina í Skagafjörð síðustu 15 árin eða svo.

Hægt er að skoða nýja kortið hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir