Nýtt skipurit á fjölskyldusviði sveitarfélagsins Skagafjarðar

Þann 2. maí barst mér tölvupóstur þar sem tilkynnt var um nýtt skipurit fyrir fjölskyldusvið sveitarfélagsins Skagafjarðar, breytingar sem tóku gildi 1. maí. Tilgangur breytinganna er sagður vera að samþætta þjónustu sem veitt er á fjölskyldusviði. Staða sviðsstjóra og fræðslustjóra sem áður var eitt stöðugildi er gerð að tveimur og búin er til staða verkefnastjóra sem á að sinna ýmsum verkefnum.

Jafnframt er í þessu bréfi tilkynnt hver hefur hlotið hvaða stöður í stjórnendahópi fjölskyldusviðs. Þar segir að sá sem hafi gengt stöðu frístundastjóra gegni því áfram. Staða frístundastjóra var lögð niður árið 2012 og hefur umræddur starfsmaður hingað til verið titlaður forstöðumaður íþróttamála á heimasíðu sveitarfélagsins. Þessi fullyrðing er því hreinlega ekki rétt. Nýr fræðslustjóri og nýr félagsmálastjóri eru tilgreindir ásamt sérfræðingi á fjölskyldusviði og áðurnefndum verkefnastjóra.
Nýtt skipurit var hvorki borið undir fræðslunefnd né byggðarráð. Þessi störf voru ekki auglýst af sveitarfélaginu.

Hvaða vissu geta íbúar haft fyrir því að hæfasta fólkið sé ráðið þegar stöður sveitarfélagsins eru ekki auglýstar? Ef sá sem í stöðu er skipaður er sannarlega besti kostur, þá er væntanlega eðlilegast að hann sæki um og fái svo ráðningu. Það er einfaldlega ekki hægt að vita fyrir víst hver er hæfastur án þess að auglýsa stöður og vega og meta umsóknir.

Einhverskonar hefð virðist að auki vera fyrir því að sveitarfélagið ráði í tímabundnar stöður sem lengjast svo ósjálfrátt og eru því aldrei auglýstar. Þetta er afleit stjórnsýsla.

Jafnræði og opin stjórnsýsla

Hvernig eigum við að fá fólk í fjörðinn, bæði nýtt fólk eða unga fólkið okkar aftur heim, ef stöður hjá sveitarfélaginu eru almennt ekki auglýstar? Þetta háttarlag hefur því miður viðgengist hjá sveitarfélaginu Skagafirði lengi. Þessu þarf að breyta. Hér eiga allir að hafa jafnan rétt á því að sækja um störf.

Þetta ásamt mörgu öðru sýnir hversu nauðsynlegt það er að stjórnsýslan hér verði opnari og íbúar upplýstari á allan hátt. Skipulagsbreytingar, mannaráðningar og aðrar stórar ákvarðanir sveitarfélagsins eiga að vera teknar í opnu ferli en ekki bak við lokuð tjöld.

Í skýrslu Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins árið 2017 er sýnt fram á að opin stjórnsýsla örvar pólitíska og samfélagslega þátttöku íbúa, auk þess að bæta opinbera þjónustu og ýta undir margvíslegar menningarlegar nýjungar. Með opinni stjórnsýslu styrkist lýðræði, ákvörðunarferli verða gagnsærri og mörkin fyrir ábyrgð sveitastjórna verða skýrari. Að auki geta opin gögn veitt gott aðhald gegn spillingu með því að opna upplýsingar um fjármál og árangur sveitarstjórna.

Ég tel að jafnræði og opin stjórnsýsla ætti að vera skýlaus krafa íbúa sveitarfélagsins Skagafjarðar.

VÓ - Fyrir fólkið fyrir firðinum

Álfhildur Leifsdóttir
Skipar 2. sæti á lista VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir