Nýtt skólaár hafið í Háskólanum á Hólum
Nýnemadögum við Háskólann á Hólum lauk í síðustu viku en haustönn 2014 hófst formlega mánudaginn 25. ágúst. Samkvæmt vef Hólaskóla var dagskrá nýnemadaga ætluð öllum nýnemum, jafnt staðnemum sem fjarnemum - sem mættu þá í sína fyrstu staðbundnu lotu, hvort sem þeir eru að hefja nám í fiskeldisfræði eða á einhverri hinna þriggja grunnnámsbrauta ferðamáladeildar.
Dagskrá nýnemadaga hófst í íþróttasal skólans með ávarpi rektors, Erlu Bjarkar Örnólfsdóttur. Einnig var farið skoðunarferð um og ýmislegt var til gamans gert, auk beinnar fræðslu og kynninga. Ferðaþjónustan á Hólum lagði sitt af mörkum til nýnemadaganna, með kvöldopnun á veitingastaðnum Undir Byrðunni.
„Nýnemadögum lauk formlega um hádegi á miðvikudag, og má segja að þá hafi deildirnar tekið við sínum nýnemum. Nemendur í fiskeldisnámi fengu þann dag leiðsögn um aðstöðu deildarinnar í Verinu á Sauðárkóki og bleikjukynbótastöðina hér heima á Hólum.
Á fimmtudagsmorguninn héldu þeir síðan í tveggja daga skoðunarferð í fiskeldisstöðvar á Norðausturlandi, undir dyggri fararstjórn Ólafs Sigurgeirssonar. Og verður ekki annað sagt en að Þingeyjarsýslurnar hafi fagnað þeim með látum,“ segir á vefnum.
Myndir frá nýnemadögunum má skoða á vef skólans.