„Óásættanlegt að þjónusta í heimabyggð sé ekki nýtt“

Upplýsinga- og umræðufundur fyrir eldri borgara (60+) og aðstandendur í Húnaþingi vestra var haldinn í Félagsheimilinu á Hvammstanga sl. þriðjudag.  Á fundinum var skorað á þingmenn kjördæmisins og heilbrigðisráðherra að tryggja fjármagn til að manna þau ónýttu legurými sem eru til staðar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga.

„Nýting á sjúkrasviði hefur farið vaxandi einkum á undanförnum tveimur árum og hefur það gerst nokkrum sinnum að fólk héðan úr héraði hefur ekki fengið rými á HVE á Hvammstanga vegna þess að starfsstöðin er ekki nægilega mönnuð til að geta tekið við fleiri sjúklingum. Ekki hefur verið hægt vegna fjárskorts að manna sjúkrasvið nema vegna 17 legurýma þó gert sé ráð fyrir að 20 rými séu það sem til þarf til að sinna núverandi þörfum,“ segir í ályktun fundarins sem birt hefur verið á vef Húnaþins vestra.

„Fundurinn telur óásættanlegt að þjónusta í heimabyggð sé ekki nýtt þegar húsrými er til staðar, en þess í stað dvelji sjúklingar á Akranesi, í Reykjavík eða á Akureyri í mun dýrari úrræðum. Að mati fundarins er ekki hægt að ganga lengra í sparnaði við stofnunina nema að skerða þjónustuna og þar með rýra búsetuskilyrði í sveitarfélaginu,“ segir loks í ályktuninni.

Fleiri fréttir