Öflugur drengjaflokkur lagði taplaust lið Keflavíkur
Strákarnir í drengjaflokki Tindastóls í körfuknattleik léku vel á laugardag þegar þeir unnu taplaust lið Keflavíkur í A-riðli Íslandsmótsins. Lokatölur urðu 77-65.
Strákarnir komu grimmir til leiks og voru yfirleitt skrefinu á undan gestunum. Munurinn var þó lengstum innan við 10 stig, en í fjórða leikhluta jókst munurinn og á endanum varð hann 12 stig, 77-65.
Barátta strákanna í vörninni var til fyrirmyndar og áttu þeir í fullu tré við gott lið Keflvíkinga allan leikinn. Liðið hefur tekið miklum framförum síðan í haust og það má leiða að því líkur að staða þeirra væri jafnvel enn betri í dag, ef þeir hefðu ekki spilað svo marga leiki snemma á tímabilinu á meðan liðið var ennþá að slípast saman.
Þorbergur átti mjög góðan leik í dag og gaman að sjá framfarirnar hjá honum í vetur. Hann stjórnar liði sínu eins og herforingi og setur niður körfur þegar þær bjóðast, sumar jafnvel alla leið frá Pósthúsinu. Pálmi var nú meira ógnandi innan teigs en áður og ormurinn Einar Bjarni var þéttur allan leikinn. Reynald sýndi líklega sinn besta leik í vetur og þeir Gummi og Ingimar áttu góða spretti. Jónas átti einnig fína innkomu og ungu strákarnir í 10. og 9. flokki fengu að spila undir lokin.
Tobbi var stigahæstur með 23 stig, Einar Bjarni skoraði 15, Gummi 11, Pálmi Geir 10, Reynald og Ingimar 8 hvor og Jónas 2.
Sigurinn lyfti strákunum upp í 3. sæti A-riðils og eru þeir einungis 2 stigum á eftir toppliðum Keflavíkur og FSu.
Fjöldi áhorfenda var á leiknum og skemmtu þeir sér vel og studdu vel við bakið á strákunum.
Næsti leikur strákanna er útileikur gegn Þór Akureyri 16. nóvember