Óhlutbundin kosning í Skagabyggð og Akrahreppi
Engir framboðslistar bárust til kjörstjórna í tveimur sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra, Skagabyggð og Akrahreppi, fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor og því verða óhlutbundnar kosningar í sveitarfélögunum eins og verið hefur. Það þýðir að allir kjörgengir íbúar sveitarfélaganna eru í kjöri nema þeir hafi sérstaklega skorast undan því eða séu löglega undanþegnir skyldu til að taka kjöri.
Ríkisútvarpið greindi frá því í fyrradag að núverandi oddviti Skagabyggðar, Vignir Á. Sveinsson, ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í sveitarstjórn en hann hefur gegnt oddvitaembætti í sveitarfélaginu frá árinu 2010 eða í tvö kjörtímabil.
Ríkisútvarpið hefur eftir Vigni að þau mál sem helst brenna á íbúum sveitarfélagsins séu samgöngumál, heilsugæsla og atvinnumál. Vignir segir ennfremur að íbúar sveitarfélagsins séu almennt jákvæðir gagnvart sameiningu sveitarfélaganna í sýslunni þó ekki séu endilega allir sammála um hvernig hún skuli framkvæmd. Það sé hlutverk nýrra sveitarstjórna að ákvarða hvernig þeim málum skuli fram haldið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.