Ólafsvíkingar reyndust sterkari

Lið Tindastóls fékk Víking Ólafsvík í heimsókn á Sauðárkróksvöll á laugardaginn. Leikið var við sæmilegar aðstæður á Króknum þó svo hitinn hafi ekki verið uppá margar gráðurnar. Leikurinn var jafn framan af en eftir að gestirnir tóku forystu eftir hálftíma leik þá höfðu þeir undirtökin þó ekki hafi þeir bætt við mörkum. Lokatölur urðu því 0-1 fyrir Víking.

Stólarnir léku undan vindi í fyrri hálfleik og voru heldur sterkari aðilinn framan af. Þeim tókst þó ekki að skora og það voru gestirnir sem fengu betri færi en nýr markvörður Tindastóls, Sebastian Furness, varði vel. Hann kom hins vegar engum vörnum við þegar Guðmundur Hafsteinsson komst inn fyrir vörn Stólanna á 28. mínútu og skoraði af öryggi, setti boltann í fjærhornið. Tindastólsmenn virtust heillum horfnir eftir þetta áfall og voru heppnir að sleppa inn í klefa aðeins einu marki undir.

Varnarleikur Stólanna batnaði í síðari hálfleik en illa gekk að skapa færi en lið Ólafsvíkinga er vel skipað og það reyndist ekki hlaupið að því að koma þeim í opna skjöldu. Tindastólsmenn gátu því ekki kvartað undan úrslitunum í leikslok, þeir voru lakari aðilinn að þessu sinni.

Þrátt fyrir töp í fyrstu tveimur umferðunum eru Stólarnir í 10. sæti deildarinnar en Þróttur R. og Leiknir R. hafa einnig tapað sínum leikjum en eru með lakara markahlutfall. Í næstu umferð fara strákarnir til Bolungarvíkur þann 26. maí en næsti heimaleikur er gegn ÍR laugardaginn 2. júní kl. 14:00.

Fleiri fréttir