Óli E. Albertsson frá Keldulandi á Skaga í opnuviðtali Feykis
Óli Albertsson á Skagaströnd er fæddur og uppalinn á Keldulandi á Skaga, þar sem hann var sjálfur við búskap eftir að foreldrar hans brugðu búi. Auk búskaparins hefur Óli fengist við ýmis tilfallandi störf. Hann var til að mynda í löndunargengi á Skagaströnd í ein 20 ár og við afleysingar hjá ýmsum bændum.
Óli segist raunar fyrst hafa byrjað að búa eftir að hann hætti búskap. Blaðamanni Feykis lék forvitni á að heyra um búskaparhætti á Skaga og sitthvað fleiri sem Óli hefði frá að segja og bankaði því upp á hjá honum á björtum júnídegi og átti við hann spjall.
Sjálfur var Óli með átta kýr þegar mest var en í afleysingum hjá öðrum bændum hirti hann allt að fimmtán kýr. Ærnar urðu mest 110 en á öðrum bæjum fóðraði hann stundum á fjórða hundrað. „Ég átti fjórar merar einu sinni. Svo lenti ég í afleysingum frammi í Vatnsdal og þurfti að gefa þar rúllur."
"Ég nennti aldrei að telja hrossin en þau átu tvær rúllur upp til agna á sólarhring. Ég segi að rúllutæknin sé það besta sem hefur verið verið dregið út í sveit síðan Torfi í Ólafsdal kom með bakkaljáina,“ segir Óli meðal annars í opnuviðtali sem birtist í 27. tölublaði Feykis sem út kom í dag.
