"OPNI GLUGGINN" á Stöð 1 í vetur

Nýtt fyrirkomulag verður á dagskrá Stöðvar 1 í vetur, en þann 18. október nk. hefjast sýningar á sjónvarpsþáttum sem gerðir eru af almenningi, fyrirtækjum, hagsmunasamtökum, stjórnmálaflokkum og öðrum þeim sem vilja koma sínum hugmyndum á framfæri. Stöð 1 verður eins árs í lok október og telur það tilvalið að "OPNA" sjónvarpsstöðina fyrir almenningi, enda er kjörorð stöðvarinnar "Til þjónustu við þjóðina".

 

„Margir hafa alið með sér þann draum að stýra eigin sjónvarpsþætti, en ekki haft aðgang að ljósvakamiðli, og því er þetta áhugaverður kostur fyrir almenning eða hagsmunasamtök að ná til áhorfenda sem eru allflest heimili á landinu. Áhorf á Stöð 1 eykst sífellt og er sjónvarpsstöðin nú með góða stöðu á þessum markaði, enda með úrvals afþreyingarefni á kvöldin og fram eftir nóttu“, segir í tilkynningu frá Stöð 1.

Þeir sýningartímar sem nú eru í boði miðast við alla virka daga frá klukkan 16:00 – 19:00 og er greitt fyrir aðgengið sem hér segir:
Hálftímaþáttur mun kosta um 35 þúsund krónur og klukkutíma þáttur mun kosta um 70 þúsund krónur. Þáttunum ber að skila tilbúnum til útsendinga á mpeg2 formati, og séu kostendur að umræddum þáttum verða auglýsingar og kostanir að vera fastar við hvern þátt. Stöð 1 áskilur sér einnig  rétt til að selja auglýsingatíma í tengslum við þetta áhugaverða verkefni. Hér getur verið komið til dæmis kjörið tækifæri fyrir aðila sem hafa áhuga á að kynna fyrirtæki sín, eða áhugafólk um lífstíl, fasteignir, bíla, heimili og húsbúnað, köfun, ferðalög, tækni, viðskipti og margt fleira. Gerð er krafa um vandvirkni í framleiðslu og að farið sé að fjölmiðlalögum um efnistök og innihald, auk þess það skal skýrt tekið fram að efnisinntak hvers þáttar skal höfða til markhóps Stöðvar 1 sem er aldurshópurinn 35-55 ára.

 

Hugmyndum skal skila til Stöðvar 1 á tölvupósti á netfangið info@stod1.is

Fleiri fréttir