Orðinn meiri útivera - Nýliðar í golfi - Margeir Friðriksson

Nýliðar voru áberandi í starfi GSS í sumar en metþátttaka var á árlegu nýliðanámskeiði í júní. Formaður klúbbsins brá sér í hlutverk blaðamanns og tók nokkra þeirra tali og hefur Feykir birt viðtöl í nokkrum blöðum. Hér er komið að síðasta þætti, í bili að minnsta kosti.

Margeir Friðriksson hefur verið máttarstólpi körfuboltafélagsins Molduxa til áratuga en í sumar dreif hann sig loks í golfið og sér ekki eftir því. Hann segist hafa spilað með hléum í sumar en verið duglegri síðsumars. Golfið segir hann hafa gert sér gott: „A.m.k. fyrir mig sem er latur kyrrsetumaður til nokkurra áratuga,“ og bætir við: „Að hafa golfið og góða golffélaga dregur mann úr viðjum vanans, sem var orðin þörf á.“  

Margeir segir það helst hafa komið sér á óvart að hafa farið nokkrum sinnum í golf í veðri sem hann hefði annars haldið sig inni. „Ég er orðinn meiri útivera en ég var,“ segir Margeir sem mælir með því að fólk prófi að spila golf. „Ég get hiklaust mælt með því að fólk fari að iðka golfíþróttina. Hreyfingin, útiveran, félagsskapurinn, allt er þetta frábært. Það er svo bónus að lækka forgjöfina hafi maður áhuga á því. Það eiga allir sem tök hafa á því að kynna sér golfið.“

Margeir minnist skemmtilegs atviks frá sumrinu:  „Meðspilari minn var að leita að kúlunni sinni á 7. brautinni hjá trjánum vinstra megin. Það var utan brautar og grasið frekar hátt, þó ekki hærra en svo að félaginn rétt sá í kollinn á hvítri kúlunni. Hann mælir fjarlægðina að holunni, velur sér kylfu við hæfi og slær af listfengi. Okkur báðum til undrunar splundraðist kúlan og við sprungum úr hlátri því þessi kúla var sveppur,“ segir Margeir og hlær.

Ánægjulegt er að fylgjast með nýjum félögum eiga góðar stundir á vellinum. Það verður gaman að sjá fleiri bætast í hópinn á næsta ári og það eru allir velkomnir í GSS.
@Kristján Bjarni Halldórsson

Áður birst í 41. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir