Óvíst hvenær bætur berast bændum í Skagafirði

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir á Rúv.is óvíst hvenær bændur í Skagafirði sem hafa horft á eftir bústofni sínum fái bætur. Búið er að lóga yfirgnæfandi meirihluta fjár á fimm bæjum þar sem riða hefur greinst.

Á Rúv.is segir að Guttormur Hrafn Stefánsson, bóndi á Grænumýri, hafi gagnrýnt seinagang sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í málefnum bænda sem nú glíma við riðusmit en Kristján Þór lofaði í lok október að allt yrði gert til að styðja við bændur og það áfall sem riðan hefði í för með sér.

Guttormur vill að loforðið verði efnt  en engin svör hafa borist frá ráðuneytinu um framhaldið. Kristján Þór segir samtal milli ráðuneytis og bænda vera opið þó svo að engin niðurstaða sé komin.

„Ég veit ekki nákvæma stöðu á því en vona að það gerist sem fyrst. Við stöndum enn í miðjum verkum varðandi niðurskurð og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að það eigi að geta tekið enda innan tíðar,“ segir Kristján Þór í frétt Rúv.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir