Perla varð íþróttamaður tveggja sveitarfélaga

Perla með góða viðurkenningu. Mynd af Bacebook.
Perla með góða viðurkenningu. Mynd af Bacebook.

Perla Ruth Albertsdóttir frá Eyjanesi í Húnaþingi gerði það gott í handboltanum með liði Selfoss á seinasta ári auk þess að leika sínu fyrstu A-landsleiki og uppskar eftir því. Áður en árið var liðið hafði hún fengið þrjá heiðurstitla þar sem hún var valin Íþróttakona UMF Selfoss, Íþróttakona Árborgar og Íþróttamaður USVH. „Stolt, þakklæti og gleði. Er heldur betur spennt og tilbúin fyrir 2018,“ segir hún á Facebook.

Perla var Íþróttagarpur Feykis í síðasta blaði fyrir jól en þá var hún búin að fá eina viðurkenninguna af þeim þremur sem að ofan greinir.

Íþróttagarpurinn Perla Ruth Albertsdóttir
Markahæst í sigurleik á Slóvökum. 

Handboltakonan unga úr Húnaþingi vestra, Perla Ruth Albertsdóttir, hefur vakið verðskuldaða athygli í Olísdeild kvenna en hún er ein af máttarstólpum í liði Selfoss. Hún hefur skorað 53 mörk sem af er leiktímabili og næst markahæst í sínu liði en hún skoraði 80 mörk í 21 leik á seinustu leiktíð. Perla sem fædd er árið 1996 var valin í landsliðshóp fyrr á þessu ári en það sem vekur athygli er að hún hefur einungis æft handbolta í fjögur ár. Þá var hún valin íþróttakona 2017 hjá Ungmennafélagi Selfoss nú um síðustu helgi. Perla sem er frá Eyjanesi í Hrútafirði, dóttir Sigrúnar Elísabethar Arnardóttur og Alberts Jónsonar (Bibba), er íþróttagarpur Feykis að þessu sinni.

Íþróttagrein: - Handbolti

Íþróttafélag: ­- Selfoss

Helstu íþróttaafrek: -Byrjaði í handbolta 17 ára eða fyrir rúmum 4 árum. Í nóvember 2017 spilaði ég fyrstu þrjá A-landsleikina mína, skoraði tíu mörk og var markahæst í sigurleik á Slóvökum. 

Skemmtilegasta augnablikið: -Þegar ég spila handbolta, á Selfossi og áhorfendastúkan er full af geðveikt flottum stuðningsmönnum sem eru með læti og stemmingu, hvetja og fagna með mér og liðinu, allt gengur vel og það er gaman að spila, það eru skemmtilegustu augnablikin. 

Perla Ruth fagnar marki. Mynd úr einkasafni.

 Neyðarlegasta atvikið: ­-Þegar ég byrjaði í handbolta var ég í unglingaflokki og var að fara að spila fyrsta leikinn minn. En þegar leikurinn byrjaði þá fannst mér svo vandræðalegt að ÉG væri þarna að fara að spila handbolta, og ég hélt að fólk væri að hlægja að mér, svo ég neitaði að fara inná og hljóp heim grenjandi í hálfleik.

Einhver sérviska eða hjátrú? -Keppi alltaf í sama íþróttatopp og sömu nærbuxum. Ef ég geri eitthvað fyrir leik eða borða eitthvað ákveðið, og svo vinnum við leikinn eða ég á góðan leik, þá geri ég alltaf það nákvæmlega sama fyrir næsta leik.

Uppáhalds íþróttamaður? ­-Heidi Loke, besti línumaður í heimi, og Guðjón Valur, fyrirliði karlalandsliðsins í handbolta. Sjúklega flottir íþróttamenn og karakterar, lít þvílíkt upp til þeirra.

Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? ­-Ég myndi vilja keppa við Bolt í spretthlaupi.

Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? ­-Þetta væri æsispennandi í byrjun og alveg fram að síðustu metrunum og þá mundi annað hvort okkar komast bara örlítið frammúr og vinna.

Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? ­-Stökk yfir 6. bekk í grunnskóla svo ég kláraði grunnskólann á níu árum. Útskrifaðist svo úr framhaldskóla hálfu ári fyrr og byrjaði svo 18. ára í háskóla. 

Lífsmottó: -Þú getur ALLT sem þú ætlar þér.

Helsta fyrirmynd í lífinu: -Mamma mín, því hún er besta vinkona mín, súperman, frábærasta og duglegasta kona sem ég veit um.

Hvað er verið að gera þessa dagana? ­-Spila handbolta með Selfoss í Olísdeild kvenna, úrvalsdeild, þjálfa 5. og 6. flokk kvenna í handbolta og læri íþróttafræði í Háskóla Íslands á Laugarvatni

Hvað er framundan? -Alveg hellingur af einhverju skemmtilegu! A-landsliðsverkefni í mars, klára tímabilið í handboltanum með Selfossi í kringum apríl, svo bara útskrifast með B.S. í íþróttafræði frá Háskóla Íslands á Laugarvatni í maí.
..... og svo sé ég til hvað verður skemmtilegt í boði eftir það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir