Rabb-a-babb 240: Eydís Ósk
Eydís Ósk Indriðadóttir er kjarnorkukona í Húnaþingi vestra. Hún er árgerð 1982, er í sambandi með Ágústi Þorbjörnssyni, á 19 ára dóttur, Júlíu Jöru, og 29 ára stjúpson, Eyþór Loga. Hún er dóttir Herdísar og Indriða í Grafarkoti og er fædd þar og uppalin.
„Ég myndi segja að eins og er býr helmingurinn af mér á Hvammstanga og hinn helmingurinn á sveitabænum okkar, Gröf á Vatnsnesi. Stefnan er tekin á að flytja alfarið í Gröf á næstunni.“ Aðspurð út í hvað hún sé að gera og hvaða nám hún eigi að baki svarar hún: „Ég er sauðfjár- og hrossabóndi, grunnskólakennari, liðveitandi og björgunarsveitarkona í hjáverkum. Ég er með stúdentspróf frá FNV, B.S. gráðu í hestafræðum frá Hvanneyri og svo mastersgráðu í kennslufræðum frá HÍ.“ Svo má geta þess að Eydís Ósk er ansi lunkin með myndavélina á lofti.
Hvað er í deiglunni? Byrja nýtt skólaár af fullum krafti, fara á nokkra tónleika, hafa gaman með skjólstæðingunum mínum tveimur sem ég er með í liðveislu, ná fénu heim af fjalli og velja líflömbin, verja tíma með fjölskyldu og vinum og njóta lífsins!
Hvernig nemandi varstu? Í minningunni var ég bara mjög stillt og góð, ég átti alltaf auðvelt með að læra. Mér skilst að ég hafi átt það til að tala aaaðeins of mikið en ég bara man alls ekkert eftir því!
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Þegar Jón Ágúst kom ríðandi á Trítli og fékk ég hann (hestinn) í fermingargjöf frá mömmu og pabba.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Bóndi var alltaf efst á listanum og svo langaði mig líka að verða lög-reglukona og vörubílstjóri.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Allir litlu dótahestarnir sem við systur lékum okkur mikið með.
Hvert er uppáhalds leikfangið þitt í dag? Myndavélin mín.
Besti ilmurinn? Þar sem það eru rúm 15 ár síðan ég missti lyktarskynið þá er enginn eins og er, en í minningunni er það lyktin á vorin þegar allt um-hverfið er að vakna til lífsins eftir veturinn.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Ég man nú ekki hvenær ég sá hann fyrst, þar sem hann er héðan úr sveitinni, en hann keyrði nú stundum skólabílinn minn.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílpróf? Það voru aðallega Muse, Korn, Creed og Queen sem stóðu upp úr. Svo slæddust Slipknot, Nirvana, System of a Down, Incubus og fleiri með.
Hvaða lag kemur þér í stuð? Ég á rosalega mörg uppáhaldslög en ef ég á að nefna eitt þá er Territorial Pissings með Nirvana lagið sem ég hlusta á við öll tilefni. Ég hlusta á það hvort sem ég er glöð, reið, sorgmædd, þarf að peppa mig upp, róa mig niður, láta mér líða betur eða bara til að fá útrás!
Hvernig slakarðu á? Fer í göngutúr, á rúntinn og syng, spjalla við dýrin.
Hvaða seríu varstu síðast að hámhorfa? Ég skiptist alltaf á að horfa á Friends, How I Met Your Mother og Big Bang Theory.
Hvaða bíómynd var í mestu uppáhaldi þegar þú varst unglingur? Dogma! Rétt eftir tvítugt kom svo Bruce Almighty sterk inn en annars hefur Lion King líka fylgt mér allt mitt líf.
Hvað er í matinn á föstudagskvöldi? Það er nú ekki merkilegt, helst að ég fái mér pízzu með Önnu Heiðu vin- konu minni.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Týna hlutum og sjálfri mér!
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég er nú ekki mikið að elda lengur en ég myndi segja folaldasnitsel.
Hættulegasta helgarnammið? Condis kex!
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvað ég get verið hryllilega fljótfær og utan við mig. Eins hvað ég er ómannglögg.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki, tvöfeldni og þegar talað er niður til mín!
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Það sem þú vilt að aðrir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra! Verst að það fara ansi fáir eftir honum!
Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég er ekki alveg viss hver er elsta minningin en hestaleik-ur með Þórunni uppi á þakinu á torfbænum kemur upp í hug-ann. Eins líka hestaleikir og búningaleikir með hinum ýmsu krökkum sem voru í sveitinni hjá okkur og þegar við hlupum yfir í Múla að leika við Villu, Sæþór, Gunna og Rúna sem voru þar á sumrin.
Þú vaknar einn morgun í lík-ama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég væri til í að vakna sem ungur Magic Johnson og spila körfubolta allan daginn!
Hvaða einfaldi hlutur eða athöfn gerir daginn þinn betri? Þegar ég annaðhvort heyri í Júlíu minni, sem býr á Sauðárkróki, eða að hlæja að Gústa þegar hann annaðhvort er með eftirhermu eða segir pabbabrandara (ekki segja honum að ég hafi sagt þetta).
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Þar til annað kemur í ljós.
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Jim Carrey, Eyþóri Inga og Jóni Gnarr, held það yrði óskaplega skemmtilegur kvöldverður.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi fara til baka u.þ.b. 20 ár þegar flestallir mínir nánustu voru enn á lífi, hitta þau einu sinni enn til að hlæja með þeim, knúsa þau og segja þeim hvað mér þykir vænt um þau!
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Hún lifir enn!
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu til... Sko... þar sem ég er svo flughrædd þá myndi ég seint hoppa upp í flugvél! En ef ég þykist ekki vera flughrædd þá myndi það vera á Muse tónleika með Júlíu dóttur minni og Sævari kærasta hennar! Eftir tónleikana myndum við fara á leik þar sem Arsenal rústar Liverpool.
Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Stofna vinnustofu og hestaíþróttastöð fyrir fatlaða/öryrkja, fara á fótboltaleik í ensku deildinni og fá Gústa til að giftast mér!