Nú er færi á jákvæðum breytingum í Skagafirði

Miðflokkurinn heldur opinn fund með Sigmundi Davíð, Snorra Mássyni og Ingibjörgu Davíðsdóttur sunnudaginn 25. janúar í Ljósheimum. Fundurinn hefst kl. 14:00 þar sem fundarmönnum gefst færi á að ræða lands- og sveitarstjórnarmál við þingmennina. Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og hefur flokkurinn verið hvattur til að bjóða fram í Skagafirði.

Eins og lesendur Sjónhornsins hafa vonandi séð þá auglýsir Miðflokksdeild Skagafjarðar eftir frambjóðendum, ábendingum um frambjóðendur, áherslumálum o.fl.

Skagafjörður er öflugt hérað sem býður upp á mörg tækifæri til að vaxa atvinnu- og félagslega þar sem sú starfsemi sem nú er til staðar leggur grunninn og getur vaxið með nýjum tækifærum. Samfélög mega ekki staðna og til að svo verði ekki þarf sífellt að vera vakandi fyrir nýjungum, tækifærum og lausnum án þess að missa sjónar af grunninum.

Í Miðflokknum er fólk óhrætt við að ræða hlutina hreint út, hlusta og taka umræðuna hversu erfið sem hún kann að vera því þannig er hægt að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Fólkið sem skorað hefur á flokkinn að bjóða fram talar um að breytinga sé þörf í stjórnun og stefnu sveitarfélagins. Það er m.a. þess vegna sem Miðflokksfélag Skagafjarðar kannar áhuga fólks á að bjóða sig fram því sannarlega tökum við áskorunum vel.

Stjórn Miðflokksdeildar Skagafjarðar

Fleiri fréttir