Ráðgjafanefnd aðstoði Svf. Skagafjörð
Samþykkt var á síðasta sveitarstjórnarfundi Svf. Skagafjarðar að skipa þriggja manna ráðgjafanefnd sem fari yfir rekstur sveitarfélagsins og stofnanna þess og vinni tillögur með byggðaráði um leiðir til hagræðingar og sparnaðar. Gert er ráð fyrir að sveitarstjóri og fjármálastjóri sveitarfélagsins starfi með nefndinni, en henni er ætlað að starfa með og heyra undir byggðaráð og gerir því reglulega grein fyrir vinnu sinni.
Skipunartími, vinnuskipulag og áfangaskipting verður nánar skilgreind í samráði við byggðaráð, sem hafi yfirumsjón með starfi nefndarinnar. Ráðgjafanefndin verður skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af meirihluta og einum af minnihluta sveitarstjórnar og verða fulltrúar valdir með tilliti til þekkingar sinnar á rekstri og viðfangsefni ráðgjafanefndarinnar.
Miðað er við að ráðgjafanefndin geti í samráði við byggðaráð, leitað sér sérfræðiaðstoðar varðandi einstaka þætti verkefnisins og muni nýta sér eftir föngum aðgengi að þeirri sérfræði þekkingu sem er að finna hjá skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga.