Ráðherrafundur EFTA haldinn á Sauðárkróki

Ráðherrar, þingmenn og samstarfsaðilar aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) koma saman til árlegs sumarfundar mánudaginn 25. júní nk. Fundurinn fer að þessu sinni fram á Sauðárkróki. Guðlaugur Þór Þórðarson stýrir fundinum en Ísland fer um þessar mundir með formennsku í EFTA.

Fulltrúar aðildarríkjanna og EFTA á ráðherrafundinum eru eftirfarandi:

Ísland: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra (fundarstjóri).
Liechtenstein: Aurelia Frick utanríkisráðherra.
Noregur: Torbjørn Røe Isaksen iðnaðar og viðskiptaráðherra.
Sviss: Johann N. Schneider-Ammann, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss.
EFTA: Kristinn F. Árnason framkvæmdastjóri.

Efling EFTA-samstarfsins, áframhaldandi þróun fríverslunarsamninga um allan heim og samskiptin við Evrópusambandið verða efst á baugi á sumarfundinum á Sauðárkróki. Ráðherrarnir funda annars vegar með þingmannanefnd EFTA og hins vegar ráðgjafarnefndinni. Á dagskránni eru staða og horfur í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið (EES), fríverslunarnet EFTA sem er í stöðugum vexti og samskipti Sviss og Evrópusambandsins. Fulltrúar EFTA-dómstólsins og Eftirlitstofnunar EFTA (ESA) sækja einnig ráðherrafundinn.

Sumarfundir EFTA-ráðherranna hafa verið nýttir til að undirrita nýja og/eða uppfærðir fríverslunarsamninga. Slíkt gæti orðið upp á teningnum á þessum fundi og verður nánari tilhögun þess þá tilkynnt þegar hún liggur fyrir, segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir