Ráðstefna kvenfrumkvöðla á Sauðárkróki

Lilja Gunnlaugsdóttir eigandi Skrautmens. Hún framleiðir m.a. óróa og selur í umbúðum sem hún hannar úr gömlum Feyki. Mynd: FE
Lilja Gunnlaugsdóttir eigandi Skrautmens. Hún framleiðir m.a. óróa og selur í umbúðum sem hún hannar úr gömlum Feyki. Mynd: FE

Ráðstefna undir yfirskriftinni Efling kvenfrumkvöðla á landsbyggðinni var haldin í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki 18. apríl sl. Var þar um að ræða endapunkt Evrópuverkefnis sem ber heitið Free (Female Rural Enterprise Empowerment) og hafði það að markmiði að styðja við bakið á frumkvöðlakonum á landsbyggðinni. Verkefnið var samstarfsverefni sex aðila frá fimm löndum. Ásdís Guðmundsdóttir hjá Vinnumálastofnun stýrði verkefninu en Byggðastofnun var samstarfsaðili á Íslandi. Um 60 manns sátu ráðstefnuna.

Í upphafi ráðstefnunnar kynntu nokkrar konur á Norðurlandi vestra þau fyrirtæki eða verkefni sem þær eru í forsvari fyrir og kenndi þar ýmissa grasa allt frá brúðuleikhúsi til bætiefnaframleiðslu. Að lokinni kynningu á verkefninu var þátttakendum boðið að velja milli þriggja örvinnustofa þar sem viðfangsefnin voru stefnumótun, markaðssetning á netinu og hönnunarhugsun í fyrirtækjarekstri. Ráðstefnunni lauk svo með því að fjölmiðlakonan Sirrý Arnardóttir flutti stórskemmtilegan og lærdómsríkan fyrirlestur þar sem inntakið var að brýna konur til að koma fram af sjálföryggi og láta ljós sitt skína.

Ein þeirra sem erindi fluttu á ráðstefnunni var Lilja Gunnlaugsdóttir, eigandi Skrautmens, og sagði hún frá tengslaneti fyrir frumkvöðlakonur á Norðurlandi vestra sem var hluti FREE verkefnisins. Feykir bað Lilju að segja lesendum örlíðið frá verkefninu.

Lilja segir að í stuttu máli sagt hafi markmið FREE verkefnisins að efla frumkvöðlakonur á landsbyggðinni með fræðslu og hvatningu. Fræðslan felst meðal annars í námsefni á netinu sem nær yfir flest alla þá þætti sem þarf að hafa í huga þegar verið er að reka fyrirtæki. Námsefnið er frítt og aðgengilegt á íslensku á heimasíðunni www.ruralwomeninbusiness.eu. Einnig voru haldnir netfundir á Skype þar sem konur hittust í svokölluðum hæfnihringjum og fengu þar tækifæri til að ræða saman um verkefni og vandamál sem þær stóðu frammi fyrir og tengdist þeirra fyrirtækjarekstri. „Þetta var frábær vettvangur til að kynnast öðrum konum í svipuðum sporum. Ég veit til þess að SSNV hefur lýst áhuga á því að halda áfram að halda utan um þessa hæfnihringi núna þegar FREE verkefninu er formlega lokið,“ segir Lilja.

„Þriðji parturinn af verkefninu og sá sem ég kom hvað mest að er tengslanet á svæðinu. Það voru stofnuð þrjú tengslanet, á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi vestra en það er netið sem ég var þáttakandi í. Tengslanet snýst aðallega um það að hittast, kynnast öðru fólki þar sem maður getur leitað sér aðstoðar þegar þörf er á og verið til staðar þegar maður hefur tök á. Fundirnir sem við héldum voru mjög lifandi og skemmtilegir þar sem við kynntumst, fórum yfir hvaða verkefni hver og ein er að kljást við en við erum á mjög mismunandi stað hvað það varðar, allt frá því að bera hugmynd í maganum yfir í að vera búnar að reka fyrirtæki í nokkur ár. Það frábæra er að við höfum allar eitthvað fram að bjóða, með mismunandi reynslu og hugmyndir.“ 

Lilja segir verkefnið hafa gefið sér mikið, hún sé sjálfsöruggari, eigi auðveldara með að leita til fólks og það besta sé að hún hafi kynnst mörgu fólki sem sem hún hefði kannski ekki annars gert. „Því vonast ég eftir því að við náum að halda tengslanetinu á svæðinu lifandi því ég trúi því að gott tengslanet styrki og hvetji fólk til dáða. Allar þær sem hafa áhuga á að vera með í tengslanetinu geta annað hvort fundið facebook grúbbuna okkar, Frumkvöðlakonur á landsbyggðinni, Norðurland vestra, eða sent mér línu á liljag83@gmail.com.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir