Ráðstefna um auðlindir og nýtingu þeirra á Hólum
Guðbrandsstofnun, í samstarfi við Ferðamálastofu, Landvernd og Orkustofnun, stendur að ráðstefnu undir yfirskriftinni: Hvernig metum við hið ómetanlega? Auðlindir og nýting þeirra að Hólum í Hjaltadal dagana 3. – 5. desember. Markmið ráðstefnunnar er að skapa vettvang til kynningar á fjölbreyttum sjónarmiðum auðlindanýtingar, með áherslu á íslenska staðhætti.
Á vef Hólaskóla kemur fram að ráðstefnan samanstandi af inngangserindi og fjórum stuttum málstofum. Yfirlitserindi flytur Sólveig Anna Bóasdóttir og nálgast hún viðfangsefnið út frá nokkrum lykilspurningum: Er náttúran og auðlindirnar ómetanlegar? Hvers vegna, ef svo er? Hvað merkir ómetanlegt? Hvernig metum við, virðum og lifum með hinu ómetanlega?
Í málstofunum munu fyrirlesarar nálgast, hver frá sínu sjónarhorni, fjögur ólík en tengd þemu. Í hverri málstofu verður fjallað um viðfangið út frá sjónarhorni ferðamálafræða, auðlindafræða, siðfræði og líffræði.
Dagskrá hefst kl. 20:00 að kvöldi 3. desember en hún verður formlega sett að morgni 4. desember og dagskrá fram haldið til hádegis þann 5. desember. Bjórsetur Íslands verður sérstaklega opnað fyrir gesti ráðstefnunnar að kvöldi 3. og 4. desember.