Ráðstefnuferð til lands hinnar rísandi sólar - Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga segir frá

Hluti af íslenska hópnum á óformlegum samráðsfundi sem stjórn Íslandsdeildar ICOM boðaði til, til að ræða nýju skilgreininguna. Mynd: Áslaug Guðrúnardóttir. Aðrar myndir tók Berglind Þorsteinsdóttir.
Hluti af íslenska hópnum á óformlegum samráðsfundi sem stjórn Íslandsdeildar ICOM boðaði til, til að ræða nýju skilgreininguna. Mynd: Áslaug Guðrúnardóttir. Aðrar myndir tók Berglind Þorsteinsdóttir.

Þúsundir safnafólks frá 118 þjóðlöndum gerði sér ferð til Japans til að vera viðstödd alþjóðaráðstefnu ICOM (International Council of Museums) sem fór fram í Kyoto dagana 1. - 7. september síðastliðinn. Ég slóst í hópinn enda yfirskrift ráðstefnunnar, ekki síður en áfangastaðurinn, virkilega áhugaverð og spennandi - Söfn sem menningarmiðstöðvar: framtíð hefða - með tugi ef ekki hundruð fyrirlestra um safnatengd málefni, -umræður og skoðanaferðir 

Ráðstefnan fór að mestu fram í stóru ráðstefnuhúsi í útjaðri Kyoto, umvafið stórum og íðilfögrum lystigarði með framandi fuglum og drekaflugum. Það er enn sumarhiti í september, oftast um 32-35°C og var veðurblíða þessa ráðstefnudaga fyrir utan einstaka þrumuveður sem gekk fljótt yfir.

            Japanir voru fyrirmyndargestgjafar, eins og þeim er von og vísa en þeim er mikið í mun að gestum sínum líði sem allra best, einstaklega kurteisir og hjálpsamir. Ráðstefnan var vel skipulögð, með metnaðarfullri og áhugaverðri dagskrá. Boðið var upp á fjölbreytt úrval fyrirlestra frá 1. - 3. september með japanska arkitektinn Kengo Kuma, brasilíska ljósmyndarann Sebastiao Salgado og kínverska listamanninn Cai Guo-Qiang sem aðalræðumenn. 4. september funduðu nefndir ICOM á fjölmörgum stöðum í og í grennd við Kyoto en ICOM hefur 31 deild, ýmist þjóðdeildir svo sem Íslandsdeild ICOM en einnig í fjölmargar alþjóðadeildir sem hver um sig einbeitir sér að ákveðnum efnisþáttum í starfsemi safna.

Ég tilheyri t.a.m. Íslandsdeildinni og byggðasafna nefndinni ICR (International Committee for Regional Museums). Þann 5. september var boðið upp á skoðunarferðir til að kynnast betur japanskri sögu og menningu. Aðalfundur ICOM var haldinn þann 6. september og lokahátíðin um kvöldið. Þá var boðið upp á glæsilega viðburði á kvöldin í hinum ýmsu menningarstofnunum, ýmist í lystigörðum, Nijo-jo kastala sem er á verndarlista UNESCO og Þjóðminjasafninu í Kyoto þar sem safnafólk hittist og átti saman gæðastundir í umhverfi þar sem saga og listir drupu af hverju strái.

            Boðið var upp á bragðgóðar veitingar en Japanir hafa löngum verið þekktir fyrir listfengi í matargerð en þá var eins gott að hafa æft sig vel á matarprjónum við sushi-át heima á Íslandi áður en út var komið þar sem það voru einu verkfærin sem stóðu til boða. Fyrrnefnt listfengi Japana vakti einmitt athygli mína því það virðist vera rauði þráðurinn í öllu sem þeir bera á borð eða fást við, allt frá matar- og sælgætisgerð til fata- og húsmunagerð yfir í hljóðgjafann við gönguljós sem hljómaði eins og fuglasöngur, jafnvel yfir í afar hversdaglega og „ómerkilega“ hluti, s.s. brunahana og göturæsi sem voru listilega skreytt - öllu er ætlað að búa yfir fegurð og gleðja skynfærin. Þá er snyrtimennskan ávallt í fyrirrúmi. Hvergi var óhreinindi að sjá innandyra eða utan. Ætlast er til að farið sé úr skónum þegar farið er í söfn, hof eða sum félagsheimili. Þar er þá boðið upp á inniskó til að smeygja sér í og svo þegar farið var á salernin biðu þar önnur gerð inniskóa til skiptana, en í þeim skóm má víst alls ekki stíga skrefi út fyrir þröskulda salernanna!

            Heitustu umræðuefni ráðstefnunnar voru sjálfbærni safna og ný skilgreining á starfsemi safna. Núverandi skilgreining ICOM er frá 1974 sem þykir orðið barn síns tíma, þar segir að safn sé „stofnun með fastan rekstur sem ekki er rekin í ágóðaskyni heldur til þjónustu við samfélagið og til framgangs þess, er opin almenningi og safnar, varðveitir, rannsakar, miðlar og sýnir – til skoðunar, menntunarauka og ánægju – það sem til vitnis er um fólk og umhverfi þess, bæði áþreifanlegt og óáþreifanlegt.“ (Siðareglur ICOM fyrir söfn).

Nú stóð til að koma með nýja skilgreiningu á því hvað telst vera safn og varð hin nýja tillaga vægast sagt umdeild. Sú tillaga var sett saman af nefnd sem skipuð var fyrir tveimur árum síðan. Undirbúningsvinnan fólst í að ræða við fjölda safnafólks víða um heim um hvað þau teldu mikilvægt að hin nýja skilgreining um hlutverk safna innihéldi. Tillagan var svo kynnt í sumar með fremur stuttum fyrirvara fram að ráðstefnunni en ætlunin var að kosið yrði um hana á aðalfundinum, þar yrði hún annað hvort samþykkt eða henni hafnað. Miklar og jafnvel heitar umræður á köflum spunnust um tillöguna sem ýmist var gagnrýnd fyrir að vera of háfleyg og torskilin eða of pólitísk, og jafnvel útilokandi fyrir þjóðir þar sem mannréttindi eru ekki virt og erfitt fyrir söfn að vinna eftir því.

Aðrir sögðu að söfn þyrftu að þróast ella deyja þau út, inntak hinnar nýju skilgreiningar væri framtíðin og að hún rímaði vel við það sem flest söfn væru nú þegar að vinna að - að vera menningarmiðstöðvar og vettvangur skoðanaskipta án þess að taka afstöðu og að kynna mismunandi skoðanir og túlkanir. Nýja skilgreiningin er svohljóðandi (tek það fram að hún hefur ekki verið formlega íslenskuð og sökum þess hve háfleyg hún er það engin hægðarleikur, en þessari útgáfu hefur verið kastað fram á Facebook-síðu Íslandsdeildar ICOM):

„Söfn eru fjölradda, inngildandi rými sem efla lýðræði og þjóna sem vettvangur fyrir gagnrýna umræðu um fortíð og framtíð. Söfn viðurkenna og ávarpa átök og áskoranir samtímans með því að varðveita muni og sýnishorn fyrir samfélagið, gæta fjölbreyttra minninga fyrir komandi kynslóðir og tryggja jafnrétti og jafnt aðgengi alls fólks að menningararfi. Söfn eru ekki starfrækt í hagnaðarskyni. Þau eru þátttökumiðuð og gagnsæ og vinna virkt með og fyrir fjölbreytt samfélög að því að safna, varðveita, rannsaka, túlka, sýna og auka skilning á heiminum. Þau hafa það að markmiði að stuðla að mannlegri reisn og félagslegu réttlæti, jafnrétti á heimsvísu og hnattrænni velferð.“ (ICOM Iceland / Íslandsdeild ICOM á Facebook)

Til útskýringar á því hvers vegna svo mörgu safnafólki er umhugað um skilgreiningu á hlutverki safna og af hverju hún er svo mikið hagsmunamál þá er það ekki síst vegna þess að hún er bundin í siðareglur ICOM og í siðareglunum er settur fram lágmarksstaðall fyrir söfn með leiðbeiningum um æskilega starfshætti safnafólks. Í sumum löndum eru þessar lágmarkskröfur skilgreindar í lögum eða reglugerðum, til dæmis í íslenskum safnalögum þar sem fjallað er um viðurkenningu safna. Það er því ljóst að það er mörgum mjög hugleikið hvernig skilgreiningin hljóðar og mjög skiptar skoðanir eru um hvaða leið á að sigla safnastarfi inn í framtíðina. Þegar kom að sjálfum kosningadeginum héldu umræður og deilurnar áfram en loks kom málamiðlunartillaga um að fresta afgreiðslu hennar til næsta allsherjarþings ICOM í París að ári.

            Ráðstefnuferðin var því ævintýri líkust frá upphafi til enda; bauð upp á áhugaverða og lærdómsríka fyrirlestra með dass af spennandi uppákomum og drama, hlýjan sumarauka í gullfallegu landi ríku af menningarminjum og yndislega gestrisinni þjóð, með stórskemmtilegum félagsskap á þriðja tug íslensk safnafólks.

Áður birst í 36.tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir