Raunveruleikasjónvarp á Kaffi Krók

Þessa dagana er hópur á vegum þýskrar sjónvarpsstöðvar staddur í Skagafirði við gerð raunveruleikaþátta þar sem fjórir kokkanemar spreyta sig í matargerð. Þeir munu sjá um veitingastaðinn Kaffi Krók næstu vikuna og elda fyrir gesti og gangandi. Eru bæjarbúar hvattir til að líta við og smakka afraksturinn.

Að sögn Írisar Sveinsdóttur, sem er hópnum til aðstoðar meðan þau dvelja hér á landi, komu kvikmyndagerðarmenn til landsins fyrr í sumar og skoðaðu ýmsa staði. Leist þeim best á Sauðárkrók og var það úr að upptökur færu fram á Kaffi Krók, í góðu samstarfi við Kristínu Magnúsdóttur eiganda staðarins.

Þátttakendur eru fjórir ungir kokkanemar og vissu þau einungis að ferðinni væri heitið til Íslands, en ekki hvert. Auk eldamennskunnar á Kaffi krók þurfa þau að leysa ýmis verkefni. Í gærmorgun þegar Feyki bar að garði voru þau t.a.m. búin að fara út á Fjörð og veiða og ná í lambakjöt beint frá býli. Eiga þau einkum að kynna sér íslenska matarmenningu og spreyta sig á því að elda úr íslensku hráefni.

Kvikmyndatökuliðið kemur frá Kelvin film í Þýskalandi en þættirnir eru gerðir fyrir sjónvarpsstöðina ZDF, sem er nokkurs konar RÚV þeirra þjóðverja. Sem fyrr segir er Íris hópnum innan handar, en hún er hárgreiðslukona og sminka og bjó í Þýskalandi í mörg ár. Var hún upphaflega fengin til að aðstoða við ferðaplön, en starfið vatt upp á sig og tók hún einnig að sér að túlka, greiða, sminka og aðstoða hópinn á ýmsan hátt.

Hópurinn vonast eftir að sjá sem flesta bæjarbúa á Kaffi Krók og verður opið frá kl. 18-22 frá og með deginum í dag.

Fleiri fréttir