Réttað í 200 ára gömlu morðmáli

Á laugardaginn kemur, þann 9. september, stendur Lögfræðingafélag Íslands fyrir vettvangsferð á slóðir síðustu aftökunnar á Íslandi. Á annað hundrað manns eru væntanlegir til Hvammstanga þar sem ný réttarhöld í málinu, sem átti sér stað fyrir tæpum 200 árum, verða settt á svið.

Það var þann 12. janúar árið 1830 sem þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru tekin af lífi í Vatnsdalshólum eftir að þau voru dæmd til dauða fyrir að myrða Natan Ketilsson, bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi, og Pétur Jónsson, vinnumann, þann 13. mars 1928.  Sigríður Guðmundsdóttir, 16 ára vinnukona, var einnig dæmd til dauða en var náðuð af kónginum og dæmd í lífstíðarfangelsi.

Í vettvangsferðinni verður farið á helstu sögustaði þessara atburða, að Illugastöðum, í kirkjugarðinn á Tjörn á Vatnsnesi og að Þrístöpum þar sem aftakan fór fram.

Að því loknu verða réttarhöldin sett á svið í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Þar verður réttur settur og lögmenn, saksóknari og dómarar munu fara yfir málið út frá þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu og dæma þau Friðrik og Agnesi upp á nýtt. Leikararnir Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Jóhann Sigurðarson munu setja áheyrendur inn í forsögu málsins áður en réttarhöldin hefjast.  Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari mun flytja málið fyrir hönd ákæruvaldsins og þau Gestur Jónsson og Guðrún Sesselja Arnardóttir eru verjendur hinna ákærðu. Dómarar í málinu eru þau Ingibjört Benediktsdóttir, Kolbrún Sævarsdóttir og Davíð Þór Björgvinsson.

Ferðin er fyrst og fremst ætluð félögum í Lögfræðingafélagi Íslands en 30 heimamönnum bauðst að kaupa sig inn á viðburðinn og er nú uppselt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir