Rétti tíminn til að hefja loðdýrarækt

Aðalfundur loðdýrabænda var haldinn á Hótel Varmahlíð um síðustu helgi sem lauk með skemmti- og fróðleiksferð um Skagafjörð og árshátíð á laugardagskvöldið. Þar voru meðal annars veitt verðlaun fyrir íslensku skinnasýninguna sem haldin var í Herning í Danmörku dagana 30. mars til 1. apríl sl. Frá Íslandi fór að þessu sinni 25 manna hópur.
Á fundinn kom fulltrúi frá Kopenhagen Fur og var með kynningu á stöðu markaðarins og hvað þeir sjá framundan. „Það er ljóst að mikið hefur dregið úr framleiðslunni frá því árið 2014 en þá sprengdi framboðið eftirspurnina. Mestur er samdrátturinn í Kína og í baltnesku löndunum. Góð sala hefur síðan verið á smásölumarkaðnum um mest allan heim í vetur enda eru vörur úr minkaskinni mjög vinsælar í dag. Það er því margt sem bendir til þess að skinnaverð á komandi uppboðum haldi áfram að hækka í erlendri mynt og að salan verði góð. Það má því segja að jákvæð spenna sé nú í loftinu en árið 2016 var mjög erfitt rekstrarár þar sem skinnaverð voru þá langt undir framleiðslukostnaði,“ segir Einar E. Einarsson minkabóndi á Syðra-Skörðugili bjartsýnn á framtíð loðdýraræktar á Íslandi.
„Minkarækt hefur alltaf verið og er áfram spennandi og skemmtileg búgrein. Fóðurstöð Kaupfélagsins hefur líka aldrei verið sterkari og öflugari í að skaffa gott fóður en núna og nóg er af hráefnunum. Það er því kjörið fyrir þá sem vilja starfa innan landbúnaðargeirans að skoða minkaræktina vel. Það er best og ódýrast að byrja þegar skinnaverðin eru í lægð. Ég vona því að einhverjir nýir aðilar komi inn í greinina svo við getum aukið aðeins framleiðsluna frá Íslandi en um leið skaffað atvinnu hér á svæðinu og nýtt öll þessi hráefni. Krónan mun svo að endingu gefa eftir en meðan verið er að byggja upp er gott að hafa hana sterka því þá eru búr og annað sem þarf að kaupa erlendis frá ódýrari í innkaupum,“ segir Einar í viðtali við Feyki sem kemur út í dag. Þar segir hann nánar frá sýningunni í Herning, stöðu loðdýraræktar á Íslandi og samanburð íslensku framleiðslunnar gagnvart þeirri erlendu.