„Réttlætiskennd fólks hefur verið misboðið“

Stéttarfélagið Samstaða í Húnavatnssýslum er þessa dagana að leggja lokahönd á kröfugerð félagsins í tengslum við komandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins, en gildandi kjarasamningar renna í flestum tilvikum út í lok febrúar. Ásgerður Pálsdóttir, formaður  Samstöðu segir að þegar hafi verið haldnir nokkrir vinnustaðafundir á félagssvæðinu.

„Samninganefnd félagsins hefur haldið fundi, en þessa dagana er áhersla lögð á heimsækja félagsmenn á vinnustöðum. Þannig  náum við að tala við ansi margt fólk. Samninganefndin kemur svo  saman í næstu viku og sendir Starfsgreinasambandinu endanlega kröfugerð félagsins.“

Ásgerður segir að hljóðið í sínu fólk sé frekar þungt.

„Já, ég get ekki sagt annað. Margir tala um að samkomulag hafi verið í síðustu samningum um að stilla launahækkunum í hóf, meðal annars til að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu. Síðan hafa ýmsar starfsstéttir samið um miklar kækkanir.  Almennt launafólk einfaldlega sættir sig ekki við þessa stöðu, það er ósköp einfalt. Réttlætiskennd fólks hefur verið misboðið, það er greinilegt.“

Ásgerður býst ekki við öðru en að komandi kjaraviðræður verði erfiðar.

„Miðað við allt tal talsmanna atvinnulífsins, sýnist mér að svo verði. Ég er þess vegna ekki bjartsýn, svona í upphafi. En við skulum bíða og sjá til. Eitt er þó víst, almennt launafólk sættir sig ekki við að fá óverulegar kjarabætur, þegar aðrir hópar semja um ríflegar hækkanir,“ segir Ásgerður.

/karlesp@simnet.is

Fleiri fréttir