Ríkisstjórnin samþykkir skipun sérstakrar landshlutanefndar fyrir Norðurland vestra

Ríkisstjórnin samþykkti þann 9. maí sl. að skipuð yrði sérstök landshlutanefnd fyrir Norðurland vestra sem komi með tillögur sem miða að því að efla byggðaþróun, fjölga atvinnutækifærum og efla fjárfestingu á svæðinu. Jafnframt er nefndinni ætlað að horfa til þeirra tækifæra sem liggja í því hvernig efla megi opinbera þjónustu á svæðinu en hún hefur dregist umtalsvert saman á undanförnum árum. Þetta kemur fram í minnisblaði forsætisráðuneytis.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Svf. Skagafjarðar og formaður nýskipaðrar landshlutanefndar, segir afar mikilvægt fyrir íbúa Skagafjarðar og Norðurland vestra að þetta mál hafi náðst í gegn því ljóst er að svæðið hafi verið skilið eftir.

„Hér hefur verið fólksfækkun og verkefni okkar er að snúa þeirri þróun við. Það verður stóra verkefni næsta kjörtímabils. Þetta er afskaplega gott verkfæri fyrir okkur að hafa í höndunum í þeirri vinnu og jákvætt að ríkið skuli koma að þessu með jafn ákveðnum hætti og þetta verkefni ber með sér. Ekki er einungis verið að tala um opinber störf heldur líka að fjölga fjárfestingum á svæðinu. Þetta er stórt mál, því hér hafa orðið afskaplega litlar stórfjárfestingar síðan um 1980 þegar Steinullarverksmiðjan var reist. Það er því spurning hvort þetta er ekki verkfærið sem við þurfum til að draga stór tækifæri hingað á svæðið,“ segir Stefán Vagn í samtali við Feyki.

Landshlutanefndin mun heyra undir forsætisráðuneytið en í minnisblaðinu kemur fram að mikilvægt sé að öll ráðuneyti og hlutaðeigandi stofnanir vinni með nefndinni. „Nefndin skal hafa samráð um vinnu sína við starfshóp Stjórnarráðsins um byggðamál sem er samhæfður af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og starfsmaður Byggðastofnunar vinnur með,“ segir á minnisblaðinu.

Í nefndinni sitja: Stefán Vagn Stefánsson (formaður) yfirlögregluþjónn, Sigríður Svavarsdóttir, framhaldsskólakennari,  Héðinn Unnsteinsson stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri og Valgarður Hilmarsson framkvæmdastjóri. Með nefndinni starfar Ásmundur Einar Daðason alþingismaður og aðstoðarmaður forsætisráðherra. Starfsmaður nefndarinnar kemur frá Byggðastofnun.

Nefndin skal skila tillögum sínum eigi síðar en 1. nóvember 2014. Fyrir 1. júlí skal nefndin skila forsætisráðherra verk- og tímaáætlun um fyrirhugað starf.

Fleiri fréttir