Rokksumarbúðir Stelpur rokka!

Rokkbúðasamtökin Stelpur rokka! munu halda helgarlangar rokkbúðir í félagsheimilinu á Hólmavík dagana 15. til 17. ágúst, en þetta er í fyrsta skipti sem Stelpur rokka! koma vestur.

Dagskrá rokkbúðanna verður frá kl. 13 til 17 á föstudeginum og kl. 10 til 17 á laugardag og sunnudag. Lokatónleikarnir verða kl. 17 í Félagsheimilinu á Hólmavík.

Í rokkbúðunum læra stelpur á hljóðfæri, taka þátt í spennandi vinnusmiðjum, spila saman í hljómsveit og flytja frumsamið lag fyrir framan fullan sal fjölskyldu og vina.

20 pláss eru í boði fyrir 12 til 16 ára stelpur og viðmiðunarþátttökugjald er 12.000 krónur, en engri stúlku verður vísað frá sökum fjárskorts. Frí og niðurgreidd pláss til efnaminni stúlkna eru í boði. Stelpur frá nærliggjandi sveitarfélögum eru velkomnar. /Fréttatilk.

Stelpur rokka! er sjálfboðaverkefni sem vinnur eftir femínískri hugsjón við að efla ungar stelpur í tónlistarsköpun. Stelpur rokka! starfa ekki í hagnaðarskyni.

Fram kemur á heimasíðu samtakanna að Stelpur rokka! er aðili að regnhlífarsamtökunum Girls Rock Camp Alliance sem samanstendur af fjölda rokksumarbúðaverkefna um allan heim, m.a í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Þýskalandi. Girls Rock Camp Alliance stendur fyrir árlegri ráðstefnu rokkbúðaskipuleggjenda þar sem starfskonur rokkbúðanna hittast og deila reynslu sinni af starfinu, styrkja samstarfsböndin sín á milli og þróa starfsemina áfram.Fulltrúar frá Stelpur rokka! mættu á ráðstefnuna árið 2012 og 2013 og eru íslensku rokkbúðirnar einnig virkur aðili að nýstofnuðu Evrópuneti Rokkbúðabandalagsins.

-Rokksumarbúðir Stelpur rokka! standa öllum stelpum og transstelpum opnar, óháð uppruna, fjárhag, kynhneigð, túlkun kyngervis, trú, móðurmáli, fötlun eða annarra breyta.

Fleiri fréttir