Rokland forsýnd á Króknum 29. desember
Forsýning kvikmyndarinnar Rokland verður á Sauðárkróki 29. desember nk. en en almennar sýningar hefjast 14. janúar í Sambíóum um land allt. Myndarinnar hefur verið beðið með óþreyju af Króksurum sem margir hverjir tóku þátt í gerð hennar með einum eða öðrum hætti en flestar útitökur voru teknar á Sauðárkróki og nærsveitum.
Eins og flestir vita er myndin gerð eftir sögu Hallgíms Helgasonar sem segir frá Bödda (Ólafur Darri Ólafsson) sem snýr aftur til Sauðárkróks eftir 10 ára námsdvöl í Þýskalandi og ætlar sér að breyta hugsunarhætti Íslendinga. Á bloggsíðu sinni predikar Böddi sínar háleitu, þýsku hugsjónir í bland við víkingaaldar rómantík. Hann fer heldur geyst og er rekinn úr starfi sem kennari Fjölbrautarskólans eftir misheppnaða vettvangsferð til Drangeyjar.
Böddi heldur samt áfram uppteknum hætti því hann er hugsjónamaður en lánið leikur ekki við hann. Sú sem hann elskar vill hann ekki og sú sem hann notar er að nota hann. Á bloggsíðunni eys hann úr viskubrunni sínum yfir mörlandann við lítinn fögnuð Sauðkræklinga. Á Króknum verður engu breytt! Böddi heldur því af stað til Reykjavíkur á hestinum Nietzsche. Hann er með byssu í vasanum og háleitar hugsjónir fyrir lýðinn. Hann er tilbúinn að hefja byltingu. Alvöru byltingu.
Leikstjóri og handritshöfundur er Marteinn Þórsson. Rokland er framleidd af Pegasus ehf og er framleiðandi myndarinnar Snorri Þórisson. Með aðahlutverk fara: Ólafur Darri Ólafsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson , Lára Jóhanna Jónsdóttir og LADDI.
Upptökur fóru fram á Sauðárkróki og í Reykjavík og nágrenni um vetur og sumar árið 2009.
Myndskeið úr Roklandi er komið á YouTube sem hægt er að nálgast HÉR