Rúta endaði utan vegar við Víðihlíð

Mynd af Facebook-síðu Lögrelunnar á NV.
Mynd af Facebook-síðu Lögrelunnar á NV.

Um kl.22.00 í kvöld, barst tilkynning til lögreglunnar á Norðurlandi vestra, þess efnis að hópbifreið á suðurleið, hefði lent utan vegar skammt sunnan við Víðihlíð í Víðidal. Í bifreiðinni voru 31 með ökumanni, farþegar voru allir ungmenni á aldrinum 16-19 ára. Bifreiðin var á hjólunum allan tímann og enginn meiddist við óhappið.

Á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra segir að vel hafi gengið að ná bifreiðinni upp með aðstoð björgunarsveita og bónda af nálægum sveitabæ á stórri dráttarvél. Fólkið fór í gistingu í nágrenninu og ætla bíða með áframhald ferðar til morguns. Þess má geta að mikil hálka er á vegum á þessum slóðum og mjög hvasst og eru ökumenn beðnir að sýna varúð og aðgætni.

Vetrafærð er nú á Norðurlandi, samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar, snjóþekja, hálka eða hálkublettir og eitthvað um éljagang. Þungfært er á Holtavörðuheiðin en þæfingsfærð á Bröttubrekku. Þæfingur eða þungfært er á flestum leiðum á Snæfellsnesi. Hálka eða hálkublettir eru á öðrum leiðum. Lokað er á  Fróðárheiði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir