S listi telur rekstur Blönduósbæjar hafa farið úr böndunum

Húni segir frá því að á fundi bæjarstjórnar Blönduósbæjar í gær fór fram síðari umræða um fjárhagsáætlun 2011. Áætlunin gerir ráð fyrir að tekjur verði nánast óbreyttar en að rekstrarkostnaður verði svipaður og árið 2009 og lækki um 7% frá yfirstandandi ár. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan verði neikvæð um 7,5 milljónir króna samanborið við 53 milljón króna neikvæða niðurstöðu í áætlun fyrir yfirstandandi ár.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að fjárfestingar á næsta ári verði í algjöru lágmarki og nemi um 7 milljónum króna, en þess bera að geta að fjárfestingar hafi verið gríðarlegar á síðustu þremur árum og nema þær yfir 600 milljónum króna.

Í bókun frá L-listanum kemur fram að fjárhagsáætlunin hafi verið unnin af bæjarráði í góðri samvinnu meiri- og minnihluta. Sérstaklega hafi verið horft til þess að ná niður rekstrarkostnaði sem hafi vaxið frá árinu 2009 og lögð hafi verið áhersla á að viðhalda áfram góðri þjónustu við íbúa bæjarins. Þar segir einnig að fjárhagsáætlunin beri það með sér að sveitarfélagið búi að styrkum rekstri og stoðir þess séu traustar. Næstu ár verði nýtt til að lækka skuldir og búa í haginn fyrir framtíðina.

Í bókun frá S-listanum segir að rekstur Blönduósbæjar hafi farið úr böndunum á undanförnum árum. Þrátt fyrir að enn liggi ekki fyrir lokauppgjör vegna sundlaugarbyggingar megi gera ráð fyrir að framkvæmdir hafi farið vel á annað hundrað milljónir fram úr áætlun. Fyrir vikið verði skuldastaðan verri.

Í bókun S-listans segir einnig að í fjárhagsáætlun 2011 séu lögð drög að því að takast á við þennan veruleika þó margt sé eftir að gera áður en endanlegar útfærslur verði ljósar. Á komandi mánuðum muni S-listinn beita sér fyrir því að hagræðing og niðurskurður bitni ekki frekar á barnafólki og tekjulágum en orðið er.

Fjárhagsáætlunin var samþykkt með sjö atkvæðum samhljóða

Fleiri fréttir