Sæti í úrslitakeppninni hangir á bláþræði

Stólarnir eru í erfiðleikum. Þeir þurfa að vinna sinn leik gegn Hvergerðingum í síðustu umferð Subway-deildarinnar 2. apríl og vonast til að Álftnesingar vinni Hött. Annars eru strákarnir okkar komnir í sumarfrí. MYND: DAVÍÐ MÁR
Stólarnir eru í erfiðleikum. Þeir þurfa að vinna sinn leik gegn Hvergerðingum í síðustu umferð Subway-deildarinnar 2. apríl og vonast til að Álftnesingar vinni Hött. Annars eru strákarnir okkar komnir í sumarfrí. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það skiptast á skin og skúrir í körfuboltanum. Síðasta vor flugu Stólar og stuðningsmenn með himinskautum. Nú á liðið einn og einn góðan leik og þrátt fyrir að Stólarnir hafi aldrei haft jafn öflugan leikmannahóp á sínum snærum er átakanlegt að horfa á liðið kasta frá sér sigri sí ofan í æ. Í dag endurtók sagan sig á Egilsstöðum þar sem lið Hattar snéri leiknum við í fjórða leikhluta og skaust upp fyrir lið Tindastóls í deildinni og tryggði sér um leið sæti í úrslitakeppninni. Lokatölur 87-82 og nú er staðan sú að ef Höttur vinnur sinn leik í lokaumferðinni og Stjarnan og Tindastóll sína, þá eru meistararnir komnir í sumarfrí, en tapi Höttur þá fer Stjarnan í frí. Það verða því nagaðar neglur næstu daga í Skagafirði og víðar.

Það hefur auðvitað margt gengið Stólum í mót í vetur; meiðsli og veikindi, en hópurinn hefur aldrei verið sterkari og í honum er hellingur af reynsluboltum sem ættu að geta snúið bökum saman og stigið upp. Eða hvað? Eru menn þreyttir? Er mórallinn í tætlum? Of margar stjörnur? Of slakar stjörnur? Hungrið ekki lengur til staðar eftir að hafa nælt í Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor? Nú eða bara eitthvað annað.

Stólarnir byrjuðu leikinn vel og komust í 6-15 en heimamenn gerðu næstu sjö stig og leikurinn jafnaðist. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 13-18 og í upphafi annars leikhluta settu Pétur, Arnar og Raggi fyrstu níu stigin með þristum og staðan 13-27. Mestur varð munurinn sextán stig, 22-38, en það voru heimamenn sem klóruðu sig inn í leikinn með því að gera síðustu átta stig fyrri hálfleiks. Staðan 30-38 í hálfleik.

Stólarnir gáfu enn og aftur eftir

Lið Hattar hefur sennilega fengið grjótharða eldræðu frá Viðari í hálfleik því þegar þriðji leikhluti var rúmlega hálfnaður höfðu þeir snúið leiknum á hvolf og voru sex stigum yfir, 52-46. Höfðu á átta mínútna kafla gert 30 stig gegn átta stigum Íslandsmeistaranna. Það virðist nokkuð augljóst að andstæðingar Tindastóls hafa orðið trú á því að leikur gegn meisturunum sé aldrei tapaður – sem er sorgleg staðreynd fyrir þennan hóp leikmanna sem Stólarnir hafa í sínum herbúðum.

Arnar fann neistann aftur fyrir Stólana og við tóku æsilegar mínútur þar sem Stólarnir jöfnuðu leikinn og þristar frá Pétri og Geks komu gestunum yfir á ný og staðan 59-64 fyrir lokafjórðunginn. Stólarnir spiluðu fína vörn framan af fjórða leikhluta og gerðu sjö fyrstu stigin og komust tólf stigum yfir, 59-71. Og þá hófst kunnuglegur söguþráður. Smám saman tóku heimamenn leikinn yfir, fóru að koma boltanum í körfu Stólanna sem áttu sjálfir sífellt erfiðara með að setja stig á töfluna. Höttur komst yfir, 79-78, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og næstu tvær mínúturnar skiptust liðin á um að hafa forystuna. Síðustu sex stig leiksins voru heimamanna sem fögnuðu sterkum og sögulegum sigri – komust í úrslitakeppnina í fyrsta sinn.

Enginn leikmaður Tindastóls gerði meira en 20 stig í leiknum enn eina ferðina. Stigahæstur var Callum Lawson með 16 stig og hann tók tíu fráköst. Þá gerði Arnar 15 stig, Woods 12 en aðrir voru undir tíu stigum. Skotnýting liðanna var svipuð utan 3ja stiga línunnar og bæði lið tóku 33 fráköst. Á meðan Stólarnir fengu 14 vítaskot og nýttu 12 þá fengu heimamenn 32 víti og skoruðu úr 30 – og þar vannst leikurinn. 22 villur voru dæmdar á Hött en 25 á lið Tindastóls.

Stólarnir þurfa að treysta á lið Álftaness

Lið Tindastóls stendur betur í innbirðisviðureignum sínum við Hött en líklegasta niðurstaðan í Subway-deildinni er sú að lið Hattar, Tindastóls og Stjörnunnar endi öll með 22 stig. Þá gefum við okkur að Álftanes sigri Hött, Tindastóll vinni Hamar og Stjarnan leggi lið Blika. Þá þarf að reikna innbyrðis stigaskor liðanna þriggja og þar stendur lið Tindastóls best (+6) og endar í sjöunda sæti, Höttur (0) yrði í áttunda sæti og Stjarnan í níunda sæti (-6) og væri því ekki með í úrslitakeppninni. Stólarnir þurfa því að treysta á Kjartan Atla og hans lærisveina á Álftanesi í lokaumferðinni þegar Höttur heimsækir Forsetahöllina. Ef Höttur sigrar lið Álftaness verða Stjarnan og Tindastóll að líkindum jöfn með 22 stig og þá fara Garðbæringar áfram, unnu Stólana með sex stigum á meðan Stólarnir unnu hinn leikinn með fimm stigum – eftir að Stjarnan gerði flautukörfu í blálokin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir