Saga hrossaræktar – félagskerfið, þriðja grein :: Kristinn Hugason skrifar

Myndatexti: Kunnur hestur fyrst lengi í einkaeigu en síðar í sambandseign: Þáttur 722 frá Kirkjubæ (IS1967186102). Sýndur á LM78 hvoru tveggja sem einstaklingur með einkunnina 8,16 og stóð þriðji í röð í elsta flokki stóðhesta (6 vetra og eldri) og með afkvæmum og hlaut 1. verðlaun, eink.: 8,09 og annað sætið. Var þá keyptur af Hrossaræktarsambandi Skagfirðinga. Hlaut svo heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á landsmótinu 1982, eink.: 8,17 og annað sætið. Í WF eru skráð 611 afkvæmi hestsins og 117 þeirra með fullnaðardóm. Myndin er tekin á Skógarhólum árið 1978, knapi: Sigurður Haraldsson. Mynd úr safni SÍH, ljm.: Einar E. Gíslason.
Myndatexti: Kunnur hestur fyrst lengi í einkaeigu en síðar í sambandseign: Þáttur 722 frá Kirkjubæ (IS1967186102). Sýndur á LM78 hvoru tveggja sem einstaklingur með einkunnina 8,16 og stóð þriðji í röð í elsta flokki stóðhesta (6 vetra og eldri) og með afkvæmum og hlaut 1. verðlaun, eink.: 8,09 og annað sætið. Var þá keyptur af Hrossaræktarsambandi Skagfirðinga. Hlaut svo heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á landsmótinu 1982, eink.: 8,17 og annað sætið. Í WF eru skráð 611 afkvæmi hestsins og 117 þeirra með fullnaðardóm. Myndin er tekin á Skógarhólum árið 1978, knapi: Sigurður Haraldsson. Mynd úr safni SÍH, ljm.: Einar E. Gíslason.

Í síðustu grein var fjallað allítarlega um hrossaræktarsamböndin og starfið innan þeirra en það var auk umsvifamikils stóðhestahalds töluvert og þá að mestu í tengslum við búnaðarsamböndin og landsráðunautanna í hrossarækt, s.s. söfnun og frágangur folaldaskýrslna, aðkoma að sýningahaldi o.fl. Samstarfsvettvangur þeirra, Hrossaræktarsamband Íslands, nýttist og verulega þegar unnið var á sínum tíma að skilgreiningu dómskalans, stigunarkvarðanum, sem tekin var upp formlega árið 1990.

Annar félagsskapur innan hrossaræktarinnar

Fyrr í greinaflokki þessum hefur mikið verið fjallað um hestamannafélögin en hið elsta þeirra; Hestamannafélagið Fákur í Reykjavík, varð einmitt hundrað ára 24. apríl sl. Fleiri hestamannafélög voru svo stofnuð hvert af öðru víða um land. Heildarsamtök þeirra, Landssamband hestamannafélaga (LH) var stofnað á fundi sem fram fór í Reykjavík dagana 18. til 19. desember 1949. Þessi félagsskapur lét sér málefni hrossaræktarinnar mjög varða enda voru það eðlilega helst félagar í hestamannafélögunum, hestamennirnir sjálfir, sem báru hag íslenska hestsins fyrir brjósti og áttuðu sig á því að án góðra hesta var lítil framtíð fyrir íþrótt þeirra.

Þegar um 1950 komst á náið samstarf á milli Búnaðarfélags Íslands (BÍ) og LH um málefni hrossaræktarinnar en það var þó ekki fyrr en á landsmótinu að Skógarhólum í Þingvallasveit árið 1970 sem bæði samtökin voru skrifuð fyrir mótinu í mótsskrá en allar götur frá 1950 þegar landsmót var fyrst haldið til og með mótinu á Hólum í Hjaltadal 1966 var LH eitt kynnt í mótsskrám sem mótshaldari og talað um „Landsmót Landssambands hestamannafélaga“, þó að BÍ sæi um kynbótaþátt mótanna allt frá byrjun. Þetta samstarf komst svo á enn fastari grunn árið 2002 þegar nýtt einkahlutafélag, Landsmót ehf., í eigu LH að tveimur þriðju og BÍ (Bændasamtök Íslands frá 1995) að einum þriðja tók við rekstri landsmótanna.

Árið 1973 tóku gildi ný búfjárræktarlög (lög nr. 31/1973) í lögunum var m.a. ákvæði um svokallaða sýninganefnd BÍ og LH sem var fimm manna nefnd og skipuðu hana tveir fulltrúar LH, tveir starfandi héraðsráðunautar og hrossaræktarráðunautur BÍ sem var formaður. Með starfi þessarar nefndar komst aukin festa á samstarf BÍ og LH og samráð innan greinarinnar, að ætla má.

Í lögunum frá 1973 var einnig ákvæði um starfsemi stofnræktarfélaga og nutu þau nokkurs ríkisstyrks en þá um langt skeið höfðu verið greiddir ýmsir styrkir vegna hrossaræktarstarfsins; s.s. styrkir út á folaldaskýrslur sem runnu til hrossaræktarsambandanna, girðingastyrkir vegna stóðhestagirðinga, verðlaunafé út á hross á stórmótum og svo stofnræktarstyrkirnir sem hér voru nefndir. Landsmótið 1982 var síðasta mótið þar sem verðlaunafé var greitt út og síðar á sama áratugnum var svo tekið að innheimta sýningagjöld.

Helstu stofnræktarfélögin voru Skuggafélagið sem var stofnað árið 1964 sem gekk út á að rækta stofn út af Skugga 201 frá Bjarnanesi, Fjallablesafélagið undir Eyjafjöllum, Kleifahross, félag sem miðaði að ræktun stofns frá Kleifum í Gilsfirði og Snældufélagið; um ræktun út af Snældu Sigurðar frá Brún, nr. 540 í ættbók. Ekkert þessara félaga er lengur við lýði eða a.m.k. með virka starfsemi, þó höfundi sé ekki kunnugt um hvort þau hafi verið lögð niður með formlegum hætti eða ekki. Kynbótafræðilega séð má og segja að stofnrækt sem aðferð í kynbótum snúi hreinlega öfugt; vissulega er undirstöðuatriði að byggja ræktunina á traustum grunni, þ.e. góðum stofni en sækja þarf fram; byggja á gæðunum en setja sér markmið að gera betur en ekki að festa í sessi eitthvað það sem taldist afbragð á sínum tíma.

Innræktun eða skyldleikaræktun eins og stofnræktin felur í sér ber og með sér þá ógn að festa í sessi galla jafnt sem kosti og enginn gripur er gallalaus. Þá dregur skyldleikaræktun jafnframt úr lífsþrótti og frjósemi en báðir þessir þættir byggjast mjög á erfðablendni en úr henni dregur skyldleikaræktin, eðli máls samkvæmt.

Árið 1975 var stofnað félag með áherslu á hagsmunamál hrossaræktar og hrossabúskapar í heild og hlaut nafnið Hagsmunafélag hrossabænda; félagið einbeitti sér að því að standa vörð um t.d. beitarrétt hrossa til jafns við annan búpening, að afurðasölumálum hvoru tveggja hvað kjöt varðar og blóðtöku en fyrstu tilraunir með hana hófust hér á landi strax um 1980 og að sölumálunum erlendis en flutningur hrossanna var þá mikill flöskuháls. Nafni félagsins var svo fljótlega breytt í Félag hrossabænda og þegar búgreinafélögin komu til sögunnar á níunda áratug síðustu aldar öðlaðist Félag hrossabænda stöðu búgreinafélags hrossaræktarinnar.

Heildarsameining deilda Félags hrossabænda og hrossaræktarsambandanna varð svo á tíunda áratugnum og störfuðu hinar nýju einingar venjulegast undir nafninu hrossaræktarsamtök en landssamtökin hétu eftir sem áður Félag hrossabænda. Þessari endurskipulagningu telst lokið 1998. Hrossaræktarsamböndin, eins og þau störfuðu áður, hurfu þá af vettvangi að mestu og Hrossaræktarsamband Íslands var ekki lengur til. Stóðhestahaldið hafði enda tekið stórfelldum breytingum og enn meiri voru framundan í það form sem við þekkjum í dag.

Árið 1989 voru ný búfjárræktarlög samþykkt (lög nr. 84/1989). Á grunni hinna nýju laga tók nú við störfum sýninganefndarinnar sem fyrr var getið ný nefnd undir heitinu Hrossaræktarnefnd BÍ, var það ein af búfjárræktarnefndunum sem viðkomandi búgreinafélög öðluðust aðild að. Landsráðunautar voru formenn nefndanna en í þeim sátu jafn fjöldi héraðsráðunauta og bænda, þ.e. fulltrúar frá viðkomandi búgreinafélagi. Fagráð í hrossarækt var svo stofnað til hliðar við hrossaræktarnefndina árið 1993 en tók svo að fullu við 1996 og hefur starfað með nær óbreyttu sniði allar götur síðan. Undir formennsku og með meirihlutaaðild Félags hrossabænda.

Yfirstandandi þróun og framtíðarsýn

Miklar hræringar standa yfir þessi misserin innan hvoru tveggja samtaka bænda og hrossaræktarinnar að hluta til. Félag hrossabænda er orðin eining innan Bændasamtaka Íslands og enn þá er ekki ljóst hversu stór hluti hrossaræktenda kýs að ganga þar inn með þeim skilmálum sem í inngöngunni felast. Hrossaræktarsamtök starfa enn víða, jafnvel deildaskipt að segja má á grunni gömlu hrossaræktarfélaganna og sinna grunnþjónustu, s.s. rekstur ungfolagirðinga, standa að ungfolaskoðunum o.fl. Erfitt er að ráða í það hvernig mál munu þróast.

Sá er hér heldur um pennann hefur lengi verið þeirrar skoðunar að heildarsameining hestamanna og hrossaræktenda í ein heildarsamtök sé vænlegur kostur, án þess að þessari grein sem er fræðileg samantekt sé með nokkrum hætti ætlað að tala fyrir því en öllum áhugasömum er bent á skýrsluna Hreyfing hestamanna Könnun á möguleikum aukins formlegs samstarfs eða sameiningar sem hann vann fyrir LH, Fél. hrb. og FT árið 2016, sjá: https://www.fhb.is/static/files/skjol/Ymislegt/hreyfing_hestamanna_skyrsla_kh.pdf

Niðurlagsorð

Með þessari grein er botninn sleginn í umfjöllun um félagskerfi hrossaræktarinnar. Í næstu grein og þeirri síðustu fyrir sumarleyfi verður gerð skil megin dráttunum í þróun þess lagaumhverfis sem markað hefur ramma hrossaræktarstarfsins í landinu.

Kristinn Hugason
forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins

Áður birst í 17. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir