Samanburðarrannsókn á heilsu og líðan Skagfirðinga og Sunnlendinga
Rannsókn á heilsufarslegum afleiðingum eldgossins í Eyjafjallajökli stendur yfir og er samanburðarrannsókn á heilsu og líðan íbúa í sveitarfélaginu Skagafirði hluti af því verkefni. Ástæða þess að Skagafjörður varð fyrir valinu er sú að svæðið er landbúnaðarhérað þar sem beinna áhrifa eldgossins gætti ekki. Samanburður milli þeirra sem urðu fyrir beinum áhrifum eldgossins og hinna sem búa fjarri gosstöðvunum ætti því að verða áhugaverður.
Gagnasöfnun meðal tæplega 2000 íbúa á Suðurlandi er langt komin og nú er komið að Skagfirðingum. Á næstu dögum mun ákveðinn hópur Skagfirðinga, á aldrinum 18 til 80 ára, fá kynningarbréf þar sem rannsóknin er kynnt. Bréfinu verður síðan fylgt eftir með símtali þar sem fólk er beðið um að velja á milli þess hvort það vill fá spurningalista sendan á rafrænu formi eða með bréfpósti. Mikilvægt er að sem flestir þeirra sem leitað verður til taki þátt til þess að samanburðurinn verði marktækur.
Einstakt tækifæri til að kanna áhrif eldgoss
Rannsóknin getur skilað mikilvægum upplýsingum um áhrif eldgosa á heilsu manna meðal annars um andlega líðan þess að upplifa eldgos í návígi við heimili sitt og að vera útsettur fyrir ösku af því tagi sem Eyjafjallajökull sendi frá sér.
Þrátt fyrir að um tíundi hluti mannkyns búi innan við 100 km frá virku eldfjalli er þekking á þessu sviði takmörkuð, þar sem eldgos verða sjaldan í löndum með sterka innviði er geta staðið að ítarlegum rannsóknum. Hér geta Íslendingar lagt sitt af mörkum til alþjóðasamfélagsins og er brýnt að sem flestir takir þátt í rannsókninni sem styrkt er af ríkisstjórn Íslands.
Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Guðrún Pétursdóttir framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og verkefnastjóri gagnaöflunar er Hildur Friðriksdóttir. Fjölmargir vísindamenn standa að rannsókninni. Meðal þeirra eru Unnur Valdimarsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, Arna Hauksdóttir og Hanne Krage Carlsen frá Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Þórir Björn Kolbeinsson yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Þórarinn Gíslason yfirlæknir á lungnadeildar Landspítala, Sigurður Guðmundsson forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur við Landspítala, Þröstur Þorseinsson sérfræðingur við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, Gunnlaug Einarsdóttir sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun og Halldór Runólfsson yfirdýralæknir.