Sameiningarviðræður líklega teknar upp á ný á næstunni
Nú hafa tvær af fjórum sveitarstjórnum í Austur-Húnavatnssýslu tilnefnt fulltrúa í sameiningarnefnd sveitarfélaga í sýslunni og eru því líkur á að sameiningarviðræður verði teknar upp að nýju á næstunni en hlé var gert á þeim fyrir sveitarstjórnarkosningar sl. vor. Eru það hreppsnefnd Skagabyggðar og sveitarstjórn Blönduósbæjar en málið hefur ekki verið tekið fyrir hjá sveitarstjórnum hinna tveggja sveitarfélaganna.
Hreppsnefnd Skagabyggðar kaus á fundi sínum þann 8.júní sl.sem fulltrúa sína í nefndina þau Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur, Magnús Björnsson og Karen Helgu Steinsdóttur sem kemur ný inn í stað Vignis Sveinssonar, fráfarandi oddvita hreppsins. Á fundi sveitarstjórnar Blönduósbæjar í gær var samþykkt samhljóða að halda áfram þátttöku í sameiningarviðræðunum og voru þau Guðmundur Haukur Jakobsson og Birna Ágústsdóttir tilnefnd sem aðafulltrúar í stað Valgarðs Hilmarssonar og Harðar Ríkharðssonar. Einnig mun Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, sitja í nefndinni.
Í fréttum Ríkisútvarpsins í dag var rætt við Valdimar O. Hermannsson. „Ég hef ekki heyrt neitt annað en að það sé hugur um að halda áfram,“ segir hann. „Ég er mikill sameiningarsinni og vil efla sveitarstjórnarstigið. Það verður ekki gert öðruvísi en með sameiningum,“ segir hann. Einnig var rætt við Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur sem segir vilja fyrir að halda viðræðunum áfram og þó skoðanir séu skiptar meðal íbúa sé æskilegt að ljúka þeim.
Þá segir Jón Gíslason, oddviti Húnavatnshrepps, í samtali við fréttastofu RÚV að sveitarstjórn Húnavatnshrepps hafi ekki rætt málið formlega en ætlunin sé að funda í næstu viku. Þá verði málið tekið fyrir og líklegt sé að tilnefndir verði fulltrúar í nefndina. Jón segir það liggja nokkurn veginn fyrir að sveitarstjórn vilji halda áfram viðræðum. Oddviti Skagastrandar, Halldór G. Ólafsson telur einnig að þar sé vilji fyrir áframhaldandi viðræður um sameiningu sé miðað við stefnuskrár framboða fyrir sveitarstjórnarkosningar. „Ég á ekki von á öðru en að það verði látið gerast og fólk fái að kjósa um þá valkosti sem í boði verða,“ segir Halldór í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.