Samrunaviðræður Norðlenska og Kjarnafæðis á ís

Samrunaviðræður og vinna við undirbúning samruna Norðlenska annarsvegar og Kjarnafæðis og SAH afurða hinsvegar hafa verið settar á ís en viðræður hafa staðið milli Norðlenska og Kjarnafæðis frá vormánuðum 2018 um mögulegan samruna félaganna. Formlegt ferli í átt að samruna hófst í ágúst 2018 en eftir því sem fram kemur á vef Norðlenska hefur aðilum ekki tekist að komast að endanlegu samkomulagi um fyrirkomulag samruna félaganna. 

Fram kemur í tilkynningunni að menn hafi einfaldlega ekki náð saman og ber enn talsvert í milli og eru viðræðurnar því komnar á ís og verður ekki séð að þeim verði fram haldið nema einhver nýr vinkill komi á málið. Norðlenska hefur því hafið að nýju vinnu við undirbúning nýrrar starfstöðvar félagsins á Akureyri en sú vinna var lögð til hliðar meðan viðræður um sameiningu stóðu yfir.

„Það hefur ekki verið tekin formlega ákvörðun um að slíta viðræðum en við höfum sett samningaviðræður á ís,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, um samrunaviðræður Norðlenska, í Bændablaðinu sem kom út í vikunni. „Því miður náðum við ekki saman og þá er ekki um annað að gera en horfa í aðrar áttir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir