Samþykkjum aldrei loftlínu!
Á opnum fundi áhugafólks um ásýnd Skagafjarðar, sem haldinn var í Varmahlíð sl. laugardag, kom skýrt fram að landeigendur í Skagafirði munu ekki samþykkja lagningu loftlína um lönd sín. Í tilkynningu frá skipuleggjendum kemur fram að á fundinum hafi komið fram að sveitarfélagið Skagafjörður vinni nú að breytingu á aðalskipulagi Skagafjarðar þar sem til stendur að setja stóriðjuloftlínur inn á skipulag, þrátt fyrir að Landsnet hafi nú tekið Blöndulínu 3 út af framkvæmdaáætlun og ætli að vinna umhverfismat fyrir línuna upp á nýtt.
„Fundurinn var vel sóttur, nema af fulltrúum stjórnmálaflokka í sveitarstjórn Skagafjarðar en einungis fulltrúi Vinstri Grænna og óháðra þáði boð um setu í pallborði á fundinum,“ segir í tilkynningu.
Inn á fundinn barst eftirfarandi ályktun frá hópi landeigenda í Skagafirði:
Samþykkjum aldrei loftlínu!
Landeigendur á línuleið Blöndulínu 3 ítreka enn og aftur að þeir munu aldrei samþykkja lagningu loftlínu um lönd sín.
Landeigendur hvetja sveitarstjórn Skagafjarðar til að láta af þeim fyrirætlunum að setja stóriðjuloftlínur inn á aðalskipulag. Það er augljós tímaskekkja í ljósi þess að Landsnet hefur tekið Blöndulínu 3 út af framkvæmdaáætlun og ætlar að vinna umverfismat fyrir línuna upp á nýtt, eins og Umhverfisráðuneytið og Skipulagsstofnun hafa þrýst á um. Í nýju umhverfismati verða jarðstrengir metnir sem valkostur og allar ákvarðanir um línuleiðir teknar til endurskoðunar.