Samvinna er lykillinn að góðri útkomu

Frá orðæfingu viðbragðsaðila á Blönduósi í gær. Sjá má fleiri myndir á síðu LNV. MYND AF FACEBOOK LNV
Frá orðæfingu viðbragðsaðila á Blönduósi í gær. Sjá má fleiri myndir á síðu LNV. MYND AF FACEBOOK LNV

Viðbragðsaðilar á Norðurlandi vestra stefna á hópslysaæfingu þann 11. maí næstkomandi. Í gær hittist hluti hópsins í húsnæði Krútt á Blönduósi og æfði viðbragð annars vegar við flugslysi og hins vegar rútuslysi þar sem settar voru upp tvær borðæfingar. Frá því segir á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra að æfingar gærdagsins hafi verið undirbúningur fyrir stóru æfinguna í maí en samvinna er að sjálfsögðu lykilinn að góðri útkomu. „Samhæft viðbragð skilar betri þjónustu til borgaranna,“ segir í færslunni.

Þegar myndir af æfingunni eru skoðaðar mætti halda að viðbragðsaðilar hafi verið að spila risa Matador. Feyki þótti þvi upplagt að spyrja Ásdísi Ýr Arnardóttur, sérfræðing hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra, hvaða gagn borðæfingar gera. „Í rauninni er borðæfing eins og spil eða þraut af ímynduðum aðstæðum sem þarf að leysa úr,“ útskýrði Ásdís Ýr. „Að borðæfingunni koma allir viðbragðsaðilar sem fá boð um að koma á vettvang ásamt vettvangsstjórn. Þar með talin sjúkraflutningar, björgunarsveit, lögregla, slökkvilið og Rauði krossinn. Á æfingunni er sett upp slys, notast er við leikmuni til að sýna raunverulegar bjargir á vettvangi og leyst er úr verkefnum á vettvangi sem er í raun á borði. Hver og einn lærir þar sitt hlutverk í samvinnunni og vettvangnum er stýrt af vettvangsstjóra sem er í nánu samtali við vettvangsstjórn.“

Gagnleg og skemmtileg æfing

„Ég var til að mynda á æfingunni sem sjálfboðaliði RKI [Rauða krossins] í sálrænum stuðningi og þurfti að passa að mitt fólk væri á sínum stöðum, þá söfunarsvæði slasaðra og söfunarsvæði aðstandenda. Á mínu borði var Snorri Geir varðstjóri sem sinnti starfi gæslustjóra sem m.a. tryggði lokanir á vettvangi og talningu inn og út af söfnunarsvæðum,“ segir Ásdís Ýr.

Eru svona æfingar skemmtilegar og koma að gagni? „Mjög gagnlegar og skemmtilegar, bæði þannig að við lærum að tala sama á vettvangi og virða hlutverk hvers og eins líka, þá kynnast viðbragðsaðilar innbyrðis án álagsins sem fylgir raunverulegum vettvangi.“

Þá má geta þess að viðbragðsaðilar nutu liðsinnis Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Já og fengu kaffi og kökur frá Apótekarastofunni handan götunnar. Sjá má fínar myndir frá hittingnum á síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir