Sátu fastir í skafli á Kjalvegi
Björgunarfélagið Blanda á Blönduósi var kallað út rétt rúmlega þrjú í nótt vegna bíls sem var fastur á Kjalvegi rétt norðan við Hveravelli. Að sögn Sigfúsar Heiðars Árdal, formanns Björgunarfélagsins Blöndu, var lélegt samband við ferðalangana og ekki vitað hver nákvæm staðsetning þeirra var.
„Þetta var ekki alveg útkallið sem við reiknuðum með, við vorum tilbúnir í að fara negla plötur eða eitthvað slíkt en þetta kom okkur svolítið á óvart,“ sagði Sigfús Heiðar í samtali við Feyki.
Ferðamennirnir, tveir karlmenn frá Sviss, höfðu haft samband við Neyðarlínuna en svo hafði sambandið ítrekað slitnað og því var ekki vitað í fyrstu um nákvæma staðsetningu eða hvað hafði komið fyrir.
Sigfús segir að góð færð hafi verið á leiðinni til ferðalanganna, svo gott sem auðir vegir, en það hafi verið hífandi rok, 25 m/sek og yfir 30 m/sek í hviðum.
Þegar björgunarsveitarmenn komu á staðinn sáu þeir bifreið ferðalanganna, sem var fólksbíl af gerðinni Renault Mégane, fastan í fyrsta skafli. „Þá höfðu ferðamennirnir farið út fyrir veginn, eftir mel, til að komast aðeins lengra. Við spurðum þá hvort þeim hafi ekki dottið í hug að snúa strax við en þeir svöruðu því neitandi. Þeir ætluðu að fara til Reykjavíkur.“
Mennirnir voru á leið til Reykjavíkur frá Akureyri og vissu ekki betur en hægt væri að fara Kjalveg að vetri til en Kjalvegur er lokaður yfir vetrartímann líkt og aðrir hálendisvegir.
Skömmu eftir að björgunarsveitarmenn höfðu losað ferðamennina og voru að fylgja þeim aftur til byggða skellur á ofsaveður, með blindbyl og skafrenningi. Skyggni var nánast ekkert og fóru þeir fetið á heimleið, um 3-4 km/klst.
Blessunarlega skall bylurinn ekki á þegar ferðamennirnir voru að ganga til og frá bílnum í leit að símasambandi því þeir þurftu að fara um 7-800 metra frá bílnum. Að sögn Sigfúsar Heiðars er ekki víst að þeir hefðu haft sig tilbaka að bílnum í hríðinni.
Þegar björgunarsveitarmenn sögðu skilið við ferðamennina á Blönduósi um kl. 8:30 í morgun voru þeir afar þakklátir fyrir svo giftusamlega björgun.
Að öðru leyti voru engin útköll hjá Björgunarfélaginu Blöndu og hafði lögreglan á Blönduósi sömu sögu að segja um nóttina í sínu umdæmi.