Sauðá opnar á fimmtudaginn

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum sem keyrir upp sjúkrahúsbrekkuna á Króknum að framkvæmdir hafa átt sér stað í og við gömlu hlöðuna sem stendur við rætur Sauðárgils og Litla-Skóg. Það eru þau Magnús Freyr Gíslason, arkitekt, Kolbrún Dögg Sigurðardóttir, kennari og Róbert Óttarsson, bakari sem standa á bakvið framkvæmdirnar, en þar er að búið að koma upp veitingastað sem mun opna núna á fimmtudaginn 22. júlí næstkomandi.

Blaðamaður Feykist kíkti í heimsókn í Sauðá og ræddi við Magnús Frey um staðinn og það sem mun vera í boði.
„Þetta er gömul hlaða, hér var maður í kofaborg og skólagörðum. Margir hafa keyrt hérna framhjá eða labbað og ekkert spáð í þessari hlöðu. Eftir að við [Magnús og kona hans, Kolbrún Dögg Sigurðardóttir] vorum búin að vera í burtu í nokkur ár, ábyggilega fimmtán ár, og komum aftur, þá spottuðum við tækifærin sem lágu í bæði húsnæðinu og staðsetningunni, og furðuðum okkur á því af hverju það væri ekki búið að gera neitt hérna. Svo rissuðum við upp þá hugmynd að gera eitthvað fyrir bæjarbúa hérna, það er núna orðið að veruleika.“

Á boðstólnum verða drykkir, áfengir og óáfengir, kaffi og síðan úrval af smáréttum.
„Í rauninni ertu ekki að skuldbinda þig í stóran aðalrétt, heldur kaupir þú þér tvo til þrjá sem að koma þá út á sama stað og þú færð þar með fjölbreytnina.“

Fyrstu helgarnar er áætlað að vera með svona mjúka opnun eins og Magnús orðar það. Mjúk opnun felst í því að vera fyrst og fremst með drykki og snarl í boði. Matseðillinn verður síðan kynntur um miðjan ágúst, þegar öll tæki og allt er komið í gang inn í eldhúsi.
„Þannig þetta mun byrja rólega, en vel,“ segir Magnús vongóður.

„Við erum svona að opna í kringum hádegi og verðum með opið til svona tíu, ellefu, tólf á kvöldin, bara eftir stemningu. Það verður opið alla daga alla veganna til að byrja með, svo sjáum við til í vetur, hvort við setjum á einhvern vetraropnunartíma. Við ætlum svolítið að sjá hvernig mætingin er og hvað fólk vill.“

Þeir sem hafa virt framkvæmdirnar fyrir sér hafa sumir hverjir tekið eftir því að ekki er mikið um bílastæði við Sauðá en það er allt samkvæmt plani segir Magnús. Einu bílastæðin sem eru á staðnum eru ætluð fyrir fatlaða og lestarlosun fyrir starfsemina.

„Við gerum ráð fyrir því að fólk komi hingað fótgangandi, það eru drykkir í boði og því gerum við einnig ráð fyrir því að fólk komi þyrst. Þetta er alveg í hjarta bæjarins og hingað geta allir labbað, það er mikið af gönguleiðum hérna í kring og með þessu erum við að stuðla að lýðheilsu og umferðaröryggi,“ segir Magnús Freyr Gíslason léttur að lokum.

Sauðá mun opna fimmtudaginn 22. júlí næstkomandi og munu nánari upplýsingar um opnunina birtast á Fésbókarsíðu Sauðár.

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir