Sauðfjárbændur lýsa vonbrigðum sínum með afurðaverðskrár

Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda hefur lýst vonbrigðum með fyrstu afurðaverðskrár haustsins frá sláturhúsi KVH og kjötafurðastöð KS sem gerð voru kunn sl. mánudag. Í fréttatilkynningu sem LS sendi frá sér í gær kemur fram að verði verðskrár annarra sláturleyfishafa svipaðar er útlit fyrir að afurðaverð standi í stað frá því í fyrra. Það þýðir að verð til bænda verður tæpar 600 kr/kg fyrir lambakjöt og 175 kr/kg fyrir annað kindakjöt.

„Afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda er orðið mjög lágt í alþjóðlegum samanburði. Meðalverð fyrir lambakjöt skv. nýjustu verðskrám er áþekkt og í Póllandi. Sé það borið saman við afurðaverð í 17 öðrum Evrópulöndum er það hærra í fjórtán þeirra (allt að 60%). Einu samanburðarlöndin þar sem verðið er lægra eru Eistland og Rúmenía. Til að nefna nokkur dæmi er verðið nú um 740 kr/kg í Bretlandi, 760 kr/kg í Danmörku og 820 kr/kg í Svíþjóð,“ segir í tilkynningunni.

Sauðfjárbændur hvetja sláturleyfishafa til að sækja betur fram í markaðs- og sölustarfi fyrir lambakjöt. „Allt útlit er fyrir að metfjöldi ferðamanna sæki Ísland heim í sumar og í því felast mikil tækifæri. Jafnframt hefur komið fram í fréttum að umframeftirspurn er eftir kjöti á innanlandsmarkaði, sem mæta hefur þurft með innflutningi. Íslenska lambakjötið hefur ekki verið nýtt til að fylla það tómarúm. Til að byggja greinina upp til framtíðar þarf að styrkja þennan þátt verulega í sessi og efla erlenda markaðssókn um leið,“ segir loks í tilkynningunni.

 

Fleiri fréttir