Seldu hamborgara fyrir milljón

Harðsnúið Hard Wok starfsfólk. Mynd af FB-síðu HWC.
Harðsnúið Hard Wok starfsfólk. Mynd af FB-síðu HWC.

Það var hamagangur í öskjunni í gær þegar 424 hamborgarar voru afgreiddir með stæl á Hard Wok Cafe á Sauðárkróki en vertinn, Árni Björn Björnsson, ákvað að styrkja kvennalið Tindastóls um allan ágóða sölunnar, rúmar milljón krónur. Leikmenn liðsins sáu um afgreiðslu, útkeyrslu og aðstoð í eldhúsi og í sal.

„Það var algjörlega frábært að vinna með stelpunum, skipulagið og dugnaðurinn til fyrirmyndar. Það er ekkert skrýtið við þennan árangur á vellinum,“ skrifar Árni Björn á FB-síðu veitingarstaðar síns. Þar þakkar hann einnig samstarfsfólki sínu og byrgjum; Ekran, Coka Cola, OJK, KS samlagi og Papco og síðast en ekki síst viðskiptavinum.

Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, var í skýjunum er Feykir hafði samband eftir ánægjulegt kvöld. Sagði hún söluna hafa gengið vonum framar. „Við seldum meira en maður átti von á og alveg magnað hvað þetta gekk vel. Við stelpurnar vorum að taka við pöntunum í síma, afgreiða og keyra út hamborgurunum á meðan starfsfólkið hans Árna, ásamt honum sjálfum, græjuðu hamborgarana. Það var ótrúlega mikið að gera um kvöldið og við lentum í því að pöntunum í útkeyrslunni seinkuðu aðeins en fólk var alveg rosalega skilningsríkt og það voru bara ótrúlega góð viðbrögð sem við fengum hvort sem við vorum að keyra út eða í afgreiðslunni á Hard Wok," sagði Bryndís ánægð og bætti við:

"Afraksturinn var virkilega góður eftir þennan skemmtilega dag! Það seldust 424 hamborgarar sem þýðir 1.060.000kr sem er frábær peningur fyrir komandi tíma hjá okkur í meistaraflokki kvenna. Takk allir sem standa við bakið á okkur, frábært að finna þennan stuðning frá samfélaginu. Sérstakar þakkir frá okkur leikmönnum til Árna og hans starfsfólks á Hard Wok fyrir að græja þessa frábæru fjáröflun!  Áfram Tindastól!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir