Selkópur gekk á land á Hofsósi

Það var óvenjulegur gestur sem lagði leið sína á Vesturfarasetrið á Hofsósi í morgun, eða í það minnsta stefndi þangað. Margrét Berglind Einarsdóttir á Hofsósi var nýlega mætt til vinnu sinnar á fánasaumastofunni þegar hún varð vör við selkóp sem gengið hafði á land og mjakaði sér í áttina að Vesturfarasetrinu.

Margrét segir að kópurinn sé dálítið særður. Hann sé eflaust enn á spena og hafi orðið viðskila við mömmu sína. Eftir að hafa smellt meðfylgjandi myndum af honum hafði Margrét samband við föður sinn sem mun vera að bíða eftir að ná sambandi við lögreglustjóra til að athuga hvort megi aflífa kópinn eða hvað skuli gera við hann.

Uppfært kl. 13:28:

Borist hafa upplýsingar um að búið sé að aflífa selkópinn, enda ekkert annað í stöðunni. Reyndist hann særður og ekki þótti líklegt að hann kæmist aftur til móður sinnar sem var hvergi nálæg. Kópurinn virtist mjög ungur og enn á spena. Líklegt þykir að hann hafi orðið viðskila við móður sína og endað í fjörunni við Hofsós. Því var sú ákvörðun tekin í samráði við lögreglu að lóga honum.

Fleiri fréttir