Selur dagatöl til að fjármagna dráttarvélakaup

Það er alþekkt að sauðfjárbændur þurfa að hafa allar klær úti til að reka bú sín og fjármagna tækjakaup. Einn slíkur hefur útbúið skemmtilegt dagatal sem er í senn fallegt, skemmtilegt og fróðlegt og afraksturinn fer upp í dráttarvélarkaup.

Bóndinn, sem kallar sig Karólínu í Hvammshlíð, er þýskur að uppruna og keypti eyðijörð sem keyrt er að þar sem Þverárfjallsvegur liggur sem hæst. Karólína segir að dagatalið ætti að falla vel að öllum sem hafa gaman af kindum, hestum og hundum en það er skreytt myndum úr hversdagslífinu í Hvammshlíð.

 Í kynningarmyndbandi sem hún setti á Facebooksíðu sína segir að Bragi, besti nágranni í heimi, hafi dáið í júní en hann var alltaf til staðar með dráttarvélina sína og aðstoðaði Karólínu. Hún segist ekki geta verið án vélar í búskapnum en hún heldur 50 kindur og fjögur hross auk þess sem tveir hundar eru á bænum.

Dagatalið verður fáanlegt eftir 25. október og segir hún söluna hafa gengið vonum framar. „Ég er eiginlega alsæl, peningurinn fyrir vélina sjálfa er þegar kominn inn. Það er Zetor 7245, árgangur 1990,“ segir hún en þá á eftir að koma tækjum á gripinn.

„Vélin er komin á Krókinn, búin að finna notuð tæki á hana og þar sem ég er svo heppin að eiga góða vini hérna á svæðinu, sem lánuðu mér til að kaupa notaða skóflu og rúllugreip, verður traktorinn fljótlega nothæfur. Vantar þá bara gaddakeðjur svo allt verði klárt fyrir veturinn. Ég vona að salan gangi vel áfram þannig að ég geti borgað vinum mínum sem fyrst til baka,“ segir hún í samtali við Feyki. Karólína bendir á að dagatalið bjóði ekki bara upp á hinar algengu upplýsingar, vikutölur, tunglið og rauðu dagana heldur er hægt að finna gömlu mánuðina á borð haustmánuð sem er nú eða gormánuð sem hefst fyrsta vetrardag. Þá eru helstu merkisdagar og ekki síst gömlu vikutölurnar sem koma oft fram í gömlum bókum einnig í dagatalinu og eru enn í dag notaðar af eldri kynslóðinni.

Þeir sem hafa áhuga á að eignast dagatalið geta haft samband við Karólínu í síma 8658107, í skilaboðum á Facebook eða sent henni póst á 14carom@web.de.

Hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndbandið sem Karólína setti á Facebook.

 

 

Posted by Karólína Í Hvammshlíð on Laugardagur, 22. september 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir