Sendibílstjóri, ekki yfirtekinn af ríkinu

Hver er maðurinn? Ágúst Kárason

Hverra manna ertu ? Kári Steindórsson Vestfirðingur og Teigsari og Gerður Geirsdóttir Skagfirðingur og Blönduhlíðingur eru foreldrar mínir.

Árgangur?  1964. Óumdeilanlega stórkostlegasti árgangur sem komist hefur á legg í Skagafirði.

Hvar elur þú manninn í dag?  Reykjavík. Meistaravellir, sem næst KR-vellinum.

Fjölskylduhagir?  í sambúð með Ástu Sólveigu Ólafsdóttur

Afkomendur?  Fjögur börn og eitt barnabarn.

Helstu áhugamál?  Fjölskyldan, KR-karfan, stangveiði, skotveiði og koma norður og róa á trillu okkar fjölskyldunnar.

Við hvað starfar þú?  Sendibílstjóri ( ekki yfirtekinn af ríkinu ) á mínum eigin bíl.

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er .....................ást, umhyggja og vellíðan.

Það er gaman.........................að vera KR-INGUR og afi.

Ég man þá daga er........................Himmi Valla hafði HÁR.

Ein gömul og góð sönn saga..................Segi ekki sögur sem eru alveg sannar, því góð saga má aldrei gjalda sannleikans.
Partísaga af Króknum.
Einu sinni vorum við félagarnir í húsi á Krók að skemmta okkur. Með okkur var aðili sem við skulum kalla Nonna. Nonni var mjög leiðinlegur og vildum við félagarnir losna við Nonna en kunnum ekki við að reka Nonna út og vorum við í stökustu vandræðum með kauða. Svo gerist það að guðaveigar eru að þrotum komnar og dettur mér þá í hug að biðja Nonna að fara út í bíl sem stóð fyrir utan húsið og var í eigu eins okkar og sækja sekk sem var geymdur undir aftursætinu. En einn hængur var á, það voru engir lyklar að bílnum svo að Nonni var beðinn um að brjótast inn í bílinn í gegnum skottið, það væri ekkert mál. Nú, þegar Nonni er að rembast við að opna skottið, sáum við okkur leik á borði og losa okkur við Nonna, ( hann var jú svo leiðilegur) og hringdum á lögregluna og sögðum að það væri verið að brjótast inn í bíl í götunni og þar með vorum við lausir við kauða. Þessi saga er sönn.
Spurt frá síðasta viðmælanda....................  Hvað gerist næst?
Svar............ Þrír bankar farnir á hausinn og þú spyrð hvað gerist næst. Sæll.

Hvern villt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn............. Eyjólfur Gjafar Sverrisson

Spurningin er.................. Hvað þarf til að þú spilir körfubolta með KR-bumban, eitt tímabil?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir