Sigfús Ingi nýr sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Sigfús Ingi Sigfússon. Mynd úr myndasafni.
Sigfús Ingi Sigfússon. Mynd úr myndasafni.

Á fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar nú í morgun var samþykkt samhljóða að ráða Sigfús Inga Sigfússon í starf sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Sigfús Ingi er 42 ára gamall og hefur undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri í atvinnu-, menningar- og kynningarmálum hjá sveitarfélaginu. Hann hefur viðamikla reynslu úr störfum í opinberri stjórnsýslu hjá bæði ríki og sveitarfélagi og hefur einnig starfað hjá fyrirtækjum á einkamarkaði. Sigfús lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og MBA-gráðu frá University of Stirling í Skotlandi árið 2002, auk þess hefur hann stundað nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Sigfús Ingi er kvæntur Laufeyju Leifsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu, og eiga þau þrjú börn.

Alls sóttu 17 einstaklingar um starfið en fjórir drógu umsókn sína til baka. Ráðningarferlið var í höndum ráðninga- og ráðgjafafyrirtækisins Hagvangs og að teknu tilliti til faglegs mats og umsagnar Hagvangs var ákveðið að ráða Sigfús Inga í starfið.

Áætlað er að Sigfús taki til starfa 22. ágúst næstkomandi. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir